Þess vegna vinnur Pútín efnahagsstríðið

frettinErlent, Gústaf SkúlasonLeave a Comment

Gústaf Skúlason skrifar:

Eftirfarandi er efnahagsskýring Andreas Cervenka hjá Aftonbladet í Svíþjóð sem lýsir, hvers vegna Vesturlönd sem fóru í efnahagsstríð við Rússland hafa tapað því stríði. Hér í lauslegri þýðingu.

Þann 24. febrúar eru liðin tvö ár síðan Rússar hertu á innrásinni í Úkraínu, sem hófst þegar árið 2014 með innlimun Krímskaga. Þá brást hinn vestræni heimur við á slappan hátt ef lítið er sagt. Núna átti allt að verða öðruvísi.

Í stað þess að skjóta með hefðbundnum vopnum á Rússland (sem Úkraínumenn voru látnir sjá um með smá hjálp), þá ákváðu Bandaríkin og ESB að gera hagkerfið að fremstu fylkingu í stríðinu.

Vesturlönd stunduðu efnahagsstríð – Úkraínu sá um byssurnar

Gripið var til þess í lotum sem lýst hefur verið sem hörðustu refsiaðgerðum sem nokkru sinni hefur verið beitt gegn einu landi. Lagt var hald á eignir rússneskra ólígarka, útflutningur til Rússlands bannaður og rússneskum bönkum hrint út úr hinu alþjóðlega fjármálakerfi.

Andreas Cervenka.

Jafnvel eignir rússneska seðlabankans erlendis, að verðmæti yfir 132.000 milljarða íslenskra króna, voru frystar sem aldrei hafði verið gert áður. Fjöldi erlendra fyrirtækja, þar á meðal mörg stór sænsk fyrirtæki eins og H&M, Volvo og IKEA, tilkynntu að þau hygðust draga sig út úr Rússlandi.

Margir, þar á meðal undirritaður, töldu að það myndi leiða til hraðs hruns rússneska hagkerfisins. Þannig leit málið út í fyrstu. Rússneska rúblan féll, hlutabréfamarkaðurinn í Moskvu hrundi og hagfræðingar spáðu því að landsframleiðsla Rússlands yrði í frjálsu falli.

Pútín vann

Hvernig er staðan svona tveimur árum síðar? Samantekt gæti hljómað svona: Pútín vann. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) gerði úttekt á efnahag heimsins nýlega var spáin fyrir Rússland verulega hækkuð. Núna er áætlað að landsframleiðslan hafi vaxið um 3% árið 2023 og því er spáð, að hún aukist um 2,6% árið 2024. Þannig sigrar Rússland öll önnur lönd í hinum vestræna heimi, þar á meðal Bandaríkin.

Til dæmis þá dróst landsframleiðsla Þýskalands saman um 0,3% árið 2023. Búist er við að hún muni vaxa einungis um 0,5% árið 2024, samkvæmt AGS. Rúblan er aftur á komin á svipað stig gagnvart evru eins og hún var fyrir stríð og hefur aðeins lækkað lítillega gagnvart dollar. Vísitala Kauphallarinnar í Moskvu er aðeins átta prósentum lægri en fyrir innrásina og hefur hækkað um 70% frá því að hún botnaði ár 2022.

Rússneska ríkið var sannarlega rekið með halla árið 2023 sem jafngildir 5.300 milljörðum íslenskra króna eða 1,9% af landsframleiðslu. Það má bera saman við fjárlagahalla Bandaríkjanna yfir 5% af landsframleiðslu. Í frétt tímaritsins Economist kemur fram, að Rússar í Moskvu skemmti sér eins og þeir gerðu árið 2021. Hvernig er það hægt?

Refsingaraðgerðirnar virka ekki

Ein skýringin er sú, að Rússar fundu leiðir til að sniðganga refsiaðgerðirnar. Athugun Bloomberg-fréttastofunnar sýnir, að rússnesk olía hefur meðal annars verið flutt út til Líbíu og síðan smyglað til kaupenda í Evrópu með aðstoð vafasamra útgerðarfyrirtækja. Þegar Evrópa hætti að mestu að flytja inn rússneska olíu, þá hafa Kína og Indland komið inn sem helstu viðskiptalöndin í staðinn.

Samkvæmt refsiaðgerðunum má ekki selja rússneska olíu fyrir meira en 60 dollara á tunnuna sem er langt undir heimsmarkaðsverðinu á 80 dollara. En jafnvel þessi hindrun hefur ekki komið í veg fyrir að létt sé að komast hjá henni, þökk sé vafasömum olíusölum og „draugaflota“ einkennislausra tankskipa sem afhenda vöruna. Að sögn Blomberg, þá hækkuðu mánaðartekjur Rússlands af olíu- og gasútflutningi í haust, upp í hærri tölur en fyrir stríð.

„Bensínstöð sem framleiðir skriðdreka“

Annað sem heldur rússneska hagkerfinu gangandi er stríð Pútíns. Rússar hafa þrefaldað útgjöld til varnarmála miðað við árið 2021 og verja núna rúmum þriðjungi af öllum fjárlögum í stríðið, að sögn sænsku rannsóknarstofnunarinnar SIPRI. Það snýst bæði um vopnaverksmiðjur sem starfa í akkorði og laun til hermanna og fjölskyldna þeirra. En myndin er ekki jafn falleg og við fyrstu sýn.

Hagfræðingar í Rússlandi vara við því, að hagkerfið, sem áður var mjög háð olíu og gasi, hafi núna fengið nýtt fíknilyf: stríðið. Financial Times skrifar, að einn hagfræðingurinn lýsi Rússlandi sem „bensínstöð sem hafi byrjað að framleiða skriðdreka.“ Annað vandamál er að hergagnaiðnaðurinn þarf á svo miklu vinnuafl að hald. Yfir hálf milljón nýrra starfa hafa skapast í vopnaverksmiðjunum. Það gerir venjulegum iðnaði erfiðara fyrir að finna starfsmenn.

Rússneskar þvottavélar

Anne Kreuger, fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðabankans, skrifar í umræðugrein, að refsiaðgerðirnar hafi mistekist vegna þess hversu mörg lönd voru tilbúin að aðstoða Rússa við að sniðganga reglurnar. Hún segir að önd eins og Dubai, Tyrkland, Grikkland og Singapúr séu orðnar að rússneskum þvottavélum fyrir rússneska olíu.

Margir ríkir Rússar hafa einnig flutt til Dubai, sem er orðið að Rússlandi fyrir utan Rússland, eins og Aftonbladet sagði frá fyrir stuttu. En þó að lúxusverslanir séu enn vel búnar í Moskvu eru mörg merki um að allt sé ekki eins og venjulega. Síðasta vetur hækkaði verð á eggjum skyndilega, að sögn vegna þess að erfitt er að fá vinnuafl til landbúnaðarstarfa. Margir Rússar eru farnir að skipta rúblunum sínum fyrir dollara af ótta við komandi hrun, samkvæmt The Economist.

Mikill hagnaður sænskra banka

Annars hefur mikið verið fjallað um hagnað bankanna að undanförnu. Í vikunni komu Verslunarbankinn og Nordea með sínar skýrslur. Samanlagt er hagnaður fjóru stóru bankanna í Svíþjóð rúmlega 200 milljarðar sænskra króna sem er tvöföldun frá 2020. Arðgreiðslurnar nema allt að 120 milljörðum sænskra króna. Ekki svo slæmt. Hér skrifaði ég aðeins um hvernig líta má á málið.

Skýr þróun undanfarin ár er að bankarnir hafa fækkað skrifstofum sínum frá rúmlega 1.700 skrifstofum árið 2015 í færri en 1.000 árið 2022.

Sama hefur gerst í öðrum löndum. Athyglisvert er að skrifstofan virðist vera orðin heit aftur í Bandaríkjunum. Stærsti banki landsins, JP Morgan, er byrjaður að opna nýjar skrifstofur aftur. Að hitta viðskiptavininn er greinilega þarft að mati bankans. Hvaða banki í Svíþjóð verður fyrstur til að ná sambandi?

Þetta var allt í þetta skiptið, heyrumst fljótlega!
Andreas Cervenka

Skildu eftir skilaboð