Skemmtilegasta iðja Íslendinga er að kjósa um eitthvað sem litlu eða engu máli skiptir

frettinInnlent, Pistlar1 Comment

Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður og fv. þingmaður, lætur ekki sitt eftir liggja í þjóðfélagslegri umræðu með sínum beinskeyttu og skemmtilegu pistlum sem oftast eru blandaðir smá kaldhæðni.

Í nýjasta pistlinum greinir hann frá skemmtilegustu iðju Íslendinga og má lesa í fullri lengd hér neðar:

Einhver skemmtilegasta iðja Íslendinga er að kjósa, sérstaklega um eitthvað sem litlu eða engu máli skiptir fyrir hagsmuni okkar. Engum hefði dottið í hug fyrir fram að pólitískustu kosningar aldarinnar, hið minnsta, væru um dægurlög í söngvakeppni sjónvarpsins. Í þeim tilgangi var allt lagt í sölurnar til að redda útlendingi, sem hefur engin eða mjög lítil tengsl við Ísland, dvalarleyfi. Næsta verkefni verður sjálfsagt að útvega sama manni ríkisborgararétt með hraði til að hann geti tekið þátt í forsetakosningunum svo hægt verði að láta þær snúast einnig um stríðið á Gaza.

Svo er mér hulin ráðgáta hvað margir Íslendingar leggja mikið á sig til að níða niður okkar gildi, menningu og arfleifð, jafnvel stjórnmálamenn sem hafa verið kosnir til að gæta hagsmuna okkar. Stundum upplifir maður að tilgangurinn sé að grafa undan okkar ágæta samfélagi. En það verður ekki settur verðmiði á manngæsku og mannúð, segir þetta ágæta fólk. Manngæska og mannúð er mikilvæg í öllum samfélögum og allir sammála um það. En manngæskan og mannúðin getur aldrei verið takmarkalaus og má aldrei verða til þess að grafa undan okkar samfélagi og gildum þess.

Í huga þessa mannúðarfólks, sem vill svo til að er allt á vinstri vængnum, eru flestir í Evrópu þessa dagana uppfullir af andúð á útlendingum. Evrópumenn eru núna meira og minna hægri öfgamenn og popúlistar, eins og gamlir kommúnistar uppnefndu alla andstæðinga sína á sínum tíma. Meira að segja eru norrænir jafnaðarmenn ekki undanskildir, nema síður sé. Danskir jafnaðarmenn  eru núna númer eitt í útlendingahatri og mannvonsku og Samfó skyndilega númer tvö. Svona breytist heimurinn skjótt.

One Comment on “Skemmtilegasta iðja Íslendinga er að kjósa um eitthvað sem litlu eða engu máli skiptir”

  1. „ Skemmtilegasta iðja Íslendinga er að kjósa um eitthvað sem litlu eða engu máli skiptir “

    Þarna hittir þú naglann á höfuðið Brynjar, þetta er nákvæmlega það sem ég hef sagt um störf alþingismanna undanfarna áratugi!

Skildu eftir skilaboð