„Edda Falak” sendir hótanir – Fréttin býður henni aðstoð við að finna sökudólginn

frettinInnlendarLeave a Comment

Hið undarlegasta mál átti sér stað um nýliðna helgi, þegar Margréti Friðriksdóttur ritstjóra Fréttin.is bárust skilaboð í gegnum facebook síðu miðilsins frá að því er virtist hlaðvarps-stjórnandanum Eddu Falak, þar sem hún biður Margréti að fjarlægja frétt um sig og hefur í hótunum um að senda lögfræðing, verði fréttin ekki tekin niður.

Samskiptin hófust þannig að „Edda“ sendir Margréti persónuleg skilaboð sem Margrét sá ekki strax því hún var á ferðalagi erlendis. „Edda“ bregður þá á það ráð að senda skilaboðin í gegnum Fréttina á facebook.

Fréttin sem „Edda“ vill láta fjarlægja segir frá ummælum fyrrverandi kærasta Eddu, sem skrifaði um meint ofbeldi hennar á Twitter og vakti nokkra athygli fyrir stuttu. Þar sakar hann Eddu meðal annars um andlegt ofbeldi, fitusmánun, þjófnað og að smita sig af kynsjúkdómi.

Blaðamaður Fréttarinnar spurði hvers vegna ætti að fjarlægja fréttina og hvort eitthvað væri rangt í henni.  Svarið var að þetta væri hennar einkamál og ekki fréttamatur en því var ekki svarað hvort eitthvað í fréttinni væri rangt.

Þegar blaðamaður varð ekki við beiðni Eddu, þá hefst atburðarás þar sem reiðin virðist ná tökum á sendandanum og hótanir fóru að berast sem stóðu yfir í um 20 klst., frá föstudags eftirmiðdegi til laugardagsmorguns.  Skilaboðin tóku svo aftur að berast á laugardagskvöldinu með áframhaldandi hótunum þegar Margrét var stödd í flugi á heimleið.

Skilaboðin byrja:

 Magga. Þú skrifaðir falska frétt um mig um daginn og ég kæri mig ekki um það. Ég bið þig um að taka í burtu þessa frétt fyrir klukkan 16 í dag eða ég þarf að nota lögfræðing að taka á þessu máli.“

Er því ekki annað að sjá en þetta sé Edda sjálf að biðja um að frétt um hana sjálfa sé fjarlægð (nema að um gerviaðgang hafi verið að ræða). Eins var reynt að hringja í Margréti frá þeim aðgangi.

„Vinur þinn fékk vöndinn frá mér, tilbúin að gera það sama við ykkur”

Margrét var eins og áður segir stödd erlendis þegar skilaboðin á facebook síðu Fréttarinnar fóru að berast. Edda, eða sá sem í hennar nafni skrifaði, segir að vinur Margrétar hafi fengið vöndinn frá sér og hún sé tilbúin að gera það sama við hana ef þörf væri á. Þar er átt við fjölmiðlamanninn Frosta Logason.

Bætt er um betur og Fréttinni send skjáskot af skilaboðum sem virðast hafa verið send á Frosta Logason þar sem hún segist ætla að grafa upp skítinn um ritstjóra Fréttarinnar og lætur að því liggja að hann og Margrét hafi verið saman. Hún sendir honum skilaboð um að hann sé ógeðslegur maður og sparar ekki lýsingarorðin.

Ingó ógeðslegi og Björn Ingi viðbjóður á Viljanum”

Þá bætir Edda við að Fréttin sé með frétt um „viðbjóðslega ofbeldismanninn” Ingó veðurguð, en hann skrifaði pistil fyrir síðastliðna helgi um hvernig slaufunarmenningin sem Edda stundar hafi lagt líf hans í rúst, nokkuð sem flestir fjölmiðlar landsins fjölluðu um.

„Edda“ virðist ekki taka því vel að fréttin sé ekki fjarlægð og fer þá ófögrum orðum um miðilinn og segir að Margrét sé ekki blaðamaður frekar en Björn „viðbjóður á Viljanum“ og bætir við að Hringbraut hafi fjarlægt sömu fréttina að hennar beiðni og gefur til kynna að hún hafi völd sem enginn ætti að fara upp á móti.

„Vertu sæt og fjarlægðu fréttina um mig. Ég vinn við að taka burtu gröft og þú ert fullkomið tækifæri, ég er úlfurinn og þú ert lambið”

Athygli vekur að „Edda“ segist ætla að „blokka" Margréti sem hún gerir en nokkrum tímum síðar er hún mætt aftur til leiks, þar sem hún biður Margréti um að „vera sæta“ og fjarlægja fréttina og spyr hvort Margrét ætli sér að skrifa um þessi samskipti og sagði hana vera líklega til þess því hún væri svo aum. Margrét spyr aftur hvort eitthvað sé rangt við innihald fréttarinnar, þar sé haft eftir fyrrverandi kærasta Eddu, ummæli sem hann hefur ekki, svo vitað sé, dregið til baka.

Eddu eða í það minnsta einhverjum vildarvini hennar sem þarna skrifar virðist orðið ansi heitt í hamsi þegar ekki var orðið við kröfum hennar um að fjarlægja fréttina. Hún segist þá vinna við að taka burt gröft í samfélaginu og því sé Margrét nú fullkomið tækifæri, hún og vinkona hennar séu nú komnar á fullt við að leita að skítnum um Margréti og gefur til kynna að hún ætli sér að finna fyrrverandi elskhuga Margrétar sem geti örugglega sagt eitthvað ljótt um hana og hún geti gert þátt um málið, og bætir við að hún muni gera Margréti að “ommelettu,” hlýði hún ekki, því hún sé úlfurinn og Margrét lambið.

Falsaðgangur búinn til og skilaboðum dreift

Eins og áður kom fram var Margrét stödd erlendis og einnig í flugi á meðan á sumum sendingunum stóð og svaraði því ekki alltaf. Þá fór af stað önnur atburðarás. Margrét var spurð hvort hún ætlaði að fjalla um samskiptin á Fréttinni sem hún svaraði játandi.  Í beinu framhaldi af því er notaður facebook aðgangur með nafninu Benny Hellmanskjáskot tekin af hluta samskiptanna og þeim deilt á sölusíðuna Brask og brall, samkvæmt samtali við Mána Snæ hjá DV.is. Skjáskotin voru einnig send á Margréti. Viðkomandi virtist því vilja vera á undan með fréttina, hugsanlega til að reyna afvegaleiða málið. Máni Snær hjá DV.is hafði þá samband við Margréti til að spyrja út í samskiptin en virtist strax í upphafi vera handviss um að þetta væri ekki Edda sjálf. Margrét svarar því að þetta sé hið undarlegasta mál því þegar smellt er á sendandann (view profile) þá flyst maður inn á persónulegan aðgang Eddu Falak. Máni svarar þá að honum dytti helst í hug að búið væri að „tvinna þessa reikninga saman,“ en eins og gefur að skilja þá er það ekki á sérsviði Fréttarinnar að sannreyna hvort þessi tækni sé fyrir hendi og vitað er að Facebook gætir vel að sínum persónuverndarsjónarmiðum. En þar sem málið er fremur umfangsmikið þá hefur Fréttin haft samband við forritara og Facebook vegna málsins og þá verður lögreglunni einnig afhent gögnin sem mun vonandi flýta fyrir rakningunni.

Blaðamaður DV sannfærður um að skilaboðin séu ekki frá Eddu

Máni Snær Þorláksson blaðamaður DV.is skrifar eins og áður segir frétt um skjáskotin sem dreift var og lætur að því liggja að Margrét sé þess handviss að um Eddu sjálfa sé að ræða. Þannig voru samskiptin ekki beint, heldur svarar Margrét því að þetta mál sé mjög undarlegt því þegar hún smelli á þann sem sendir skilaboðin þá lendi hún beint inni á síðu Eddu og bætir við að þar var Edda skráð í sambandi með Kristjáni en til að skrá sig í samband með einhverjum þarf viðkomandi að samþykkja það og því var ekkert sem benti til þess að aðgangurinn væri gerviaðgangur en Margrét gat samt ekki fullyrt frekar en einhver annar að um Eddu væri að ræða. Þess konar vinna er í höndum sérfræðinga.

Fréttin reyndi að hafa samband við Eddu Falak fyrir gerð fréttarinnar og sagði að einhver væri hugsanlega að nota hennar nafn og/eða aðgang til að senda hótanir og bauð henni aðstoð við að rekja skilaboðin í gegnum forritara, henni að kostnaðarlausu. Edda hefur ekki svarað boðinu og virðist því ekki hafa mikinn áhuga á að vita hver gæti verið að nota nafn hennar í annarlegum tilgangi.

Þess má einnig geta að Edda var í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gær þar sem hún segist sjálf hafa orðið fyrir hótunum og orðið skelkuð. Í fréttinni kemur fram að lögreglan hafi víðtækar heimildir til að taka á neteineltismálum og því ætti Edda að setja fullan kraft í að fá aðstoð við að finna meintan geranda. Fréttin mun einnig leggja sitt af mörkum og því fullkomið tækifæri fyrir Eddu að þiggja boðið.

Að lokum má nefna að Edda Falak setti inn færslu á Twitter í gær þar sem hún gefur til kynna að Margrét sé sú sem hafi verið að „falsa samtöl,“ með öðrum orðum að Margrét hafi í raun verið að tala við sjálfa sig og falsa samskipti milli hennar og Eddu á meðan hún var á ferðalagi í útlöndum.

Skildu eftir skilaboð