Pólsku fjallkonuna langar að búa og starfa á Íslandi

frettinInnlendarLeave a Comment

Það kom mörgum á óvart að Fjallkonan á 17. júní í ár hafi verið frá Póllandi. Hún heitir Sylwia Zajkowska, er fædd árið 1982 og á tvo syni, 8 og 12 ára gamla. Hún er fædd og uppalin í Póllandi og lærði þar leiklist í leiklistarskóla fyrir 16 árum.

Sylwia hefur tekið þátt í hinum ýmsu sýningum og verkum um heim allan og má þar nefna Japan, Kína, Ítalíu og Þýskaland. Sylwia lærði hjá National Academy of Theater Arts, Puppetry Deparment í Wrocław, og MA gráðu í leiklist (brúðleiklist).

Fréttin sló á þráðinn til Sylwiu og spurði til að byrja með hvers vegna hún hefði ákveðið að koma til Íslands.

Það var þannig að fjölskylda mín ákvað að koma hingað í frí, en svo vildi sonur minn dvelja lengur og mér bauðst að taka þátt í leikriti hér á Íslandi. Ég vildi ekki fara og fannst sárt að kveðja alla vini mína í Póllandi, en ákvað samt að láta slag standa.

Verkið heitir Tu jest za drogo sem leikhópurinn Pólís stóð fyrir og var sýnt í Borgarleikhúsinu. Sylwia segir að nú sé hún að vinna í nýrri brúðuleikhússýningu um flóttmenn sem heitir Heimferð sem er mjög dramatísk og sorgleg sýning. Hún segir að þau séu þrjú með þá sýningu, en þetta er alþjóðlegt verk sem sýnt er víða um heim.

Handbendi Brúðuleikhús stendur fyrir sýningunni og er með höfuðstöðvar á Hvammstanga. Þau hafa ferðast um landið og sýnt leikritið víða. Leikararnir heita Sigurður Arent Jónsson, Sylwia Zajkowska og Sigríður Ásta Olgeirsdóttir

Hefur verið á Íslandi í eitt ár og átta mánuði

Sylwia segist hafa dvalið á Íslandi í eitt ár og átta mánuði og ekki vera með íslenskan ríkisborgararétt en myndi gjarnan vilja búa hér og starfa áfram, en þar sem hún kann ekki mikla íslensku þá sé erfiðara fyrir hana að fá starf. Fréttin spurði hana hvernig hún hafi náð að flytja ávarpið svona vel íslensku á 17. júní.

Hún svaraði því að leikkona sem vinnur með henni í brúðuleikhúsinu hafi hjálpað henni, en mörg orð þótti henni mjög erfitt að bera fram.

Sylwiu brugðið og hélt þetta væri eitthvað grín

En hvernig kom það til að þú varst beðin um að vera Fjallkona? Sylwia sagðist ekki vita það fyrir víst en hún telji líklegt að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hafi verið í salnum í Borgarleikhúsinu á einni sýningunni, því aðstoðarkona ráðherra, Lára Björg Björnsdóttir, hafi haft samband og sagt að ráðherrann vildi tala við hana og fá hana sem Fjallkonu. „Mér var mjög brugðið,“ segir Sylwia og segist fyrst hafa haldið að þetta væri eitthvað grín. Forsætisráðherra hringir síðan í hana og segir henni frá Fjallkonunni, sem Sylwia hafði aldrei heyrt af áður, en hún hafi verið himinlifandi og sé það enn.

Helst til í að vinna við leiklistarnámskeið

Sylwia segir að hún sé búin að hafa samband við alþjóðlegt leikhússamband sem aðstoðar útlendinga við að finna starf í öðrum löndum, en hún vonast helst til að fá vinnu við kennslu/námskeið (workshops) þar sem hún er með goðan grunn í því, en það sé dýrt að vera á Íslandi og því verði hún að fá einhverja vinnu til að getað haldið sér hér uppi.

Sylwia segir að það sé aðdáunarvert að Fjallkonan sé kona sem komi úr fjöllunum til að ávarpa þjóðina. Hún segist bera mikla virðingu fyrir íslenskum konum og segir: „ég elska íslenskar konur, þið eruð svo sjálfstæðar, stoltar og fallegar, og ég er svo þakklát fyrir að fá að búa hér á landi.“

Hér má lesa um fjallkonuna, þjóðartákngerving Íslands.

Ávarp Sylwiu á 17. júní má líka sjá hér neðar:


Skildu eftir skilaboð