„Kona, líf, frelsi“ – Konur í Íran mótmæltu kúgurum sínum 1979 og mótmæla enn

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Enn er mótmælt í Íran, þriðju vikuna í röð frá því að ung kona lést í haldi siðgæðislögreglunnar þann 13 september. Í frétt BBC frá 3 október má sjá skólastúlkur í Karaj ganga í hópum, veifandi slæðum sínum í mótmælaskyni við að þeim sé skylt að hylja hár sitt og kyrja  „Death to the dictator" og eiga þar við Khameinei. Í Shiraz gerðist hið sama og einnig hefur frést af mótmælum skólastúlkna í öðrum borgum. Einnig má sjá annað myndband frá Karaj þar sem stúlkur flæma eftirlitsaðila frá skóla sínum. BBC sýnir einnig ljósmyndir af stúlkum með hárið óhulið að gefa trúarleiðtogunum Khameinei og Khomeini fingurinn. Hijabnauðung Khomeini erkiklerks var einnig mótmælt árið 1979, eins og má sjá á þessari mynd.

Sádar höfðu samskonar siðgæðislögreglu sem barði konur og handtók ef þær huldu sig ekki allar en eftir að hinn ungi leiðtogi, MBS, náði völdum þá var því hætt og nú ríkir bjartsýni meðal ungra Sáda um framtíðina. Þeim finnst að stjórn landsins stefni í rétta átt. Með því að velja Ebrahim Raisi til forseta 2021 þá tók Íran hins vegar stefnuna aftur á bak því hann er afturhaldsseggur hinn mesti. BBC sagði frá því á sínum tíma að hann hefði gerst saksóknari í Teheran aðeins 25 ára að aldri og verið einn af þeim fjórum dómurum sem sátu í svokallaðri "Dauðanefnd" 1988 en þá voru meira en 30.000 stjórnarandstæðingar (flestir vinstrisinnaðir) teknir af lífi. Ayatollah Hossein-Ali Montazeri lýsti hryllingi hreinsananna í æviminningum sínum. Ebrahim Raisi var nýlega í heimsókn í New York og vakti þá athygli með því að neita að mæta í viðtal hjá Christiane Amanpour á CNN nema hún bæri slæðu.

Dagurinn sem 100.000 konur mótmæltu slæðuskyldu árið 1979

Stjórnvöld Íran ásaka Bandaríkin og Ísrael um að kynda undir óróa í landinu og vissulega hafa Bandaríkjamenn slakað á refsiaðgerðum gegn landinu og opnað á starfssemi netmiðla þar, sem auðveldar mótmælendum að skipuleggja sig. Leiðtogar landsins muna náttúrulega enn hvernig CIA kom Mossadegh forsætisráðherra frá 1953, en hann hafði hugmyndir um að bæta hag Írana með því að þjóðnýta olíuauð landsins sem breskt félag réði yfir.  Í grein í New York Times frá 2000 kemur fram að Íranir sem unnu fyrir CIA hafi þóttst vera kommúnistar og ráðist gegn trúarleiðtogum og sett á svið sprengjuárás við heimili eins af klerkunum til að snúa íslamska trúarsamfélaginu gegn stjórn Mossadegh. Síðan handvöldu CIA og SIS, leyniþjónusta Breta, eftirmann hans, Zahedi hershöfðingja og færðu honum með leynd 5 milljónir USD tveim dögum eftir að valdaránið tókst.

Síðar virðist Jimmy Carter svo hafa hjálpað Khomeini til valda. Friðarsinninn Carter var ósáttur við Reza Shah Pahlavi vegna mannréttindabrota í landinu. Landið var í uppnámi, mótmæli tíð og einnig verkföll. Herinn studdi Shah en trúaröfgamenn shía voru tilbúnir til að gerast píslarvottar. Borgarastríð í Íran var eitthvað sem var óhagstætt hagsmunum Bandaríkjamanna og er Khomeini leitaði leynilega til Carters í janúar 1979 um aðstoð til að snúa heim úr útlegðinni í Frakklandi og sagðist geta komið í veg fyrir borgarastríð og lofaði að stjórn sín yrði vinveitt Bandaríkjunum þá virðist Carter hafa beitt áhrifum sínum til þess. Bandaríkjaforsetar eru eins og þeir eru - mistækir.

Íran er stjórnað af risaeðlum sem ættu með réttu að vera útdauðar og íbúar landsins vita það, sérstaklega unga kynslóðin sem með snjallsímum sínum getur fylgst með því hvernig réttindamálum kvenna er háttað í heiminum almennt og þótt að Vesturlandabúar virðist ekki lengur vita hvaða fyrirbæri konur séu þá vefst það tæpast fyrir ungu konunum í Íran sem hrópa „kona, líf, frelsi" á götum úti.

Skildu eftir skilaboð