Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, hefur skrifað opið bréf til Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og segir honum að huga áfram að samstöðu þjóðarinnar nú þegar farið er að hylla undir eðlilegt líf að nýju eftir kórónuveirufaraldurinn.
Björn Ingi hefur verið áberandi í fréttaflutningi af COVID-19 í faraldrinum, sat marga upplýsingafundi og skrifaði bókina ,,Vörn gegn veiru" sem kom út á síðasta ári.
Þórólfur hefur sætt þó nokkurri gagnrýni að undanförnu vegna þeirra takmarkana sem enn eru í gildi og olli Kastjósþáttur gærkvöldsins töluverðu fjaðrafolki. Hefur Þórólfur bent á að huga þurfi að öðrum pestum, inflúensu og RS-vírusnum til dæmis.
Bréfið má lesa hér að neðan:
Kæri Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir,
Þar sem ég hef fylgst ansi vel með þróun COVID-19 faraldursins hér á landi og í alþjóðlegu samhengi og notið þess að eiga við þig frábær samskipti frá fyrsta degi, datt mér í hug að senda þér fáeinar línur í þessu opna bréfi í tilefni þeirrar stöðu sem komin er upp og veldur mér nokkrum áhyggjum.
Það þarf auðvitað ekki að taka fram, en ég geri það nú samt, að við Íslendingar vorum heppin að njóta leiðsagnar þinnar og samstarfsfólks í faraldrinum. Í öllu alþjóðlegu samhengi höfum við sloppið vel sem þjóð og það er ekki síst vegna þess að við fórum þá leið að treysta faglegu mati okkar bestu sérfræðinga þegar heimsbyggðin var eitt spurningamerki yfir smitsjúkdómi sem gekk eins og eldur í sinu með hörmulegum afleiðingum.
En staðan nú er allt önnur og betri. Ekki aðeins sinntu Íslendingar kalli þínu og fjölmenntu í bólusetningu, heldur hafa þeir almennt lært að passa sínar einstaklingsbundnu sóttvarnir og fara varlega. Kannski er sú breyting almennt komin til að vera, kannski er þetta hinn nýi veruleiki sem við þurfum öll að tileinka okkur um ókomna framtíð.
En einmitt vegna þess að við höfum staðið okkur svo vel og fylgt leiðbeiningum þínum og hollráðum samviskusamlega, skynja ég nú mikla óánægju og pirring yfir því að ekki gangi hraðar en raun ber vitni að slaka á samkomutakmörkunum og skerðingu á persónufrelsi okkar borgaranna. Skerðingu sem var algerlega fordæmalaus og átti alltaf aðeins að vera tímabundin.
Nú hafa hin Norðurlöndin aflétt öllum takmörkunum og margar þjóðir aðrar. En hér á landi gilda enn margvíslegar takmarkanir og ég heyri mikla óánægju með það, ekki síst með þær röksemdir þínar að aðrir þættir á borð við inflúensu og RS-vírusinn geti gert það að verkum að neyðarástand skapist í heilbrigðiskerfinu og þess vegna þurfi að fara varlega.
Það er eflaust margt til í þeim áhyggjum þínum sem sóttvarnalæknis, en við vitum auðvitað vel að hættan af RS-vírus eða inflúensu hefði ein og sér aldrei leitt til þess að skellt hefði verið á samkomubanni eða takmörkunum á frelsi fólks. Við hefðum verið beðin að fara varlega og passa okkur og börnin okkar, en lengra hefði ekki verið gengið í því. Og þess vegna virkar það nú, eins og þú sem sóttvarnalæknir sért farinn að finna ný og ný rök fyrir því að halda óbreyttum ráðstöfunum. Ef ekki út af COVID-19, þá bara einhverju öðru.
Það held ég að sé hvorki skynsamlegt né framkvæmanlegt í nútímasamfélagi. Sjálfur er ég hættur að drekka, en tel samt að við getum ekki öllu lengur varið að skerða opnunartíma kráa og veitingahúsa. Auðvitað er ekki allt skynsamlegt sem gerist á slíkum stöðum eftir miðnætti, en það er eins og það er, og verður að koma í hlut hvers og eins að bera ábyrgð á sér sjálfum í þeim efnum. Staðan í COVID-19 faraldrinum réttlætir ekki óbreytta skerðingu á opnunartíma, það held ég að blasi við.
Ég vildi þess vegna hvetja þig til þess að halda áfram að gefa þjóðinni góð ráð og brýna góða siði og venjur, en standa við það að aflétta takmörkunum þegar þær eru ekki lengur bráðnauðsynlegar. Til dæmis grímuskyldu, opnunartíma skemmtistaða og reglum um hámarksfjölda. Annars er hættan sú að landsmenn hætti að taka mark á þessum reglum, virði þær að vettugi og komi sér hjá þeim. Það verður svo aftur til þess að samstaðan rofnar og það gæti komið í bakið á okkur seinna meir, ef staðan breytist og aftur verður ástæða til alvöru aðgerða. Þú hefur sjálfur margítrekað, að samstaðan sé besta vörnin gegn veirunni.
Ég hvet þig þess vegna til þess að gæta að þessari samstöðu. Hún verður ekki áfram til staðar, ef nýjar og nýjar ástæður koma fyrir þeim reglum sem gilda og eru strangari en annars staðar. Stjórnvöld hafa heitið því að Landsspítalinn fái svigrúm til að ráða við faraldurinn eins og hann hefur þróast og við verðum að treysta því. Neyðarástandið á spítalanum, sem sagt er frá í fréttum alla daga, er ekki af völdum COVID-19, RS-vírussins eða inflúensu, heldur langvarandi skorti á fjármunum og röngum ákvörðunum. Hvort tveggja verða stjórnmálamennirnir að leysa og það strax, en það verður ekki gert með frekari skerðingu á frelsi okkar borgaranna. Það bara gengur ekki.
Með góðri baráttukveðju,
Björn Ingi á Viljanum.