Hræsni ríka heimsins í loftslagsmálum

frettinErlent, Erna Ýr Öldudóttir1 Comment

Ríku löndin heimta olíu og kol fyrir sjálfan sig á meðan þróunarríkin skuli notast við sólar- og vindorku.

Þýdd grein eftir Dr. Bjorn Lomborg. Birtist í The Wall Street Journal, 20. júní 2022.

Viðbrögð þróuðu ríkjanna við orkukreppu heimsins hefur opinberað hræsni sína gagnvart notkun jarðefnaeldsneytis. Ríku löndin ætlast til þess að þróunarríkin noti endurnýjanlega orku. Í síðasta mánuði gengu G7 ríkin svo langt að gefa það út, að þau myndu ekki lengur fjármagna þróunarverkefni sem styðja notkun jarðefnaeldsneytis erlendis. Um leið eru Evrópa og Bandaríkin að betla aukna olíuframleiðslu hjá Arabaþjóðunum. Þýskaland ætlar að endurræsa kolaorkuverin, og Spánn og Ítalía ætla að kosta miklu í afríska gasframleiðslu. Svo mikil er eftirspurn Evrópuríkjanna orðin eftir kolum frá Botswana að það stefnir í að landið muni meira en tvöfalda kolaútflutning sinn.

Þróaði heimurinn auðgaðist með mikilli notkun jarðefnaeldsneytis, sem er enn yfirgnæfandi í flestum hagkerfum þeirra. Sól- og vindorka er ekki áreiðanleg, einfaldlega vegna þess að það kemur nótt eftir bjartan dag, ský dregur fyrir sólu og lognið drífur ekkert. Að efla geymslu á raforku stoðar lítið: Allar rafhlöður veraldar í dag duga einungis til að knýja meðalrafmagnsnotkun á heimsvísu í 75 sekúndur. Jafnvel þó að framboðið sé að aukast hratt. Árið 2030 myndu allar rafhlöður í heimi duga skemur en í ellefu mínútur. Á veturna í Þýskalandi, þegar sólskin er í lágmarki, er nánast engin vindorka tiltæk í að minnsta kosti fimm daga - eða í meira en 7.000 mínútur.

Verksmiðjur geta ekki starfað eftir því hvernig vindurinn blæs

Þetta er ástæðan fyrir því að sólarrafhlöður og vindmyllur geta ekki skilað af sér megninu af orkunni í iðnvæddum fátækum löndum. Verksmiðjur geta ekki bara stöðvast og byrjað eftir því hvernig vindurinn blæs; stál- og áburðarframleiðsla er háð kolum og gasi; og flest sólar- og vindorka getur einfaldlega ekki afhent þá orku sem þarf til að keyra vatnsdælur, dráttarvélar og aðrar vélar sem lyfta þjóðum upp úr fátækt.

Þess vegna stendur jarðefnaeldsneyti enn þann dag í dag undir meira en þremur fjórðu af orku auðugra landa, en sól og vindur aðeins 3%. Meðalmaðurinn í þróuðu ríki notar meira af jarðefnaeldsneytisorku á hverjum degi en 23 fátækir Afríkumenn.

Samt eru auðmenn heimsins að reyna að kæfa fjármögnun nýs jarðefnaeldsneytis í þróunarlöndunum. Áætlað er að um 3,5 milljarðar fátækustu manna heims séu ekki með áreiðanlegan aðgang að rafmagni. Í stað þess að veita fátækum aðgang að þeim orkugjöfum sem hjálpuðu ríkum þjóðum að iðnvæðast, fyrirskipa auðug lönd þróunarlöndum með óskammfeilni að sleppa þrepinu sem inniheldur kol, gas og olíu, og stökkva beint í græna draumaríkisalsælu sólarpanela og vindmylla.

Þessi fyrirheitna paradís er sýndarmennska byggð á óskhyggju og grænni sölumennsku. Lítum á reynsluna af Dharnai, indversku þorpi sem Greenpeace reyndi árið 2014 að breyta í fyrsta sólarorkuknúna samfélag landsins.

Ekki nægur straumur fyrir eina lampa fjölskyldunnar

Greenpeace fékk glimrandi fjölmiðlaathygli þegar samtökin lýstu því yfir að Dharnai myndi neita að „falla í gildru jarðefnaeldsneytisiðnaðarins". En daginn sem kveikt var á sólarrafmagni þorpsins tæmdust rafhlöðurnar innan fárra klukkustunda. Einn drengur man eftir að hafa ekki getað unnið heimavinnuna sína snemma morguns því það var ekki nægur straumur fyrir eina lampa fjölskyldunnar.

Þorpsbúum var sagt að nota ekki ísskápa eða sjónvörp til að klára ekki rafmagnið. Þeir gátu ekki notað eldavélar, og þurftu að halda áfram að brenna hrís og þurrkaðan skít. Brennslan veldur loftmengun jafn hættulegri heilsunni og að reykja tvo pakka af sígarettum á dag, samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Í þróunarlöndunum deyja milljónir ótímabærum dauða árlega vegna þessarar brunamengunar innandyra.

Í ágúst 2014 bauð Greenpeace einum af framlínustjórnmálamönnum indverska ríkisins, sem skömmu síðar varð hátt settur ráðherra, að koma og dáðst að handverki samtakanna. Honum var mætt af mannfjölda sem veifaði skiltum og söng að fólkið vildi „alvöru rafmagn" í staðinn fyrir þetta „gervi rafmagn".

Þegar Dharnai var loksins tengt við aðaldreifikerfið, sem er að mestu knúið kolum, féllu þorpsbúar fljótt frá sólarorkutengingunum. Akademísk rannsókn leiddi í ljós að stór ástæða þess var sú að raforka netsins kostaði aðeins þriðjung þess sem sólarorkan kostaði. Það sem meira er, það var meira en nóg rafmagn til að knýja tæki eins og sjónvörp og eldavélar. Í dag er aflagt sólarorkukerfi Dharnai þakið þykku ryki og athafnasvæðið er notað sem nautgripaskýli.

Ekkert land iðnvæðst með endurnýjanlegri orku

Vissulega hefur sólarorka einhver not, eins og til að hlaða farsíma eða kveikja ljós, en hún er oft dýr og háð sérstökum takmörkunum. Ný rannsókn í fjölmennasta fylki Indlands, Uttar Pradesh, sýndi að jafnvel miklar opinberar niðurgreiðslur gætu ekki gert sólarpanela peninganna virði fyrir flesta. Jafnvel hjá auðugum þjóðum eins og Þýskalandi og Spáni, hefði flestöll ný vind- og sólarorka aldrei verið sett upp ef ekki hefði verið fyrir opinberar niðurgreiðslur.

Vegna þessa, þrátt fyrir allt blaður hins ríka heims um loftslagsaðgerðir, eru þróuð ríki enn að fara að halda áfram næstu áratugi að treysta að mestu á jarðefnaeldsneyti. Alþjóðaorkumálastofnunin áætlar að jafnvel þó svo öllum núverandi loftslagsstefnum yrði framfylgt til hins ítrasta, myndu endurnýjanlegir orkugjafar aðeins dekka þriðjung orkunotkunar Bandaríkjanna og ESB árið 2050. Þróunarlöndin eru ekki blind á þessa hræsni. Varaforseti Nígeríu, Yemi Osinbajo, orðaði ástandið skýrt og skorinort: „Ekkert land í heiminum hefur getað iðnvæðst með því að nota endurnýjanlega orku," samt er búist við því að Afríka geri það „þegar allir aðrir í heiminum vita að við þurfum gasknúinn iðnað fyrir viðskipti."

Frekar en að stöðva þróun og velmegun annarra landa af eigingirni, ættu ríkar þjóðir að sýna skynsemi og fjárfesta markvisst í nýsköpun sem þarf til að gera græna orku skilvirkari og ódýrari en jarðefnaeldsneyti. Þannig má fá alla til að skipta yfir í endurnýjanlega valkosti. Að krefjast þess að fátækir í heiminum lifi án nægrar, áreiðanlegrar orku á viðráðanlegu verði, væri að taka sýndardyggðir fram yfir líf fólks.

Erna Ýr Öldudóttir þýddi

One Comment on “Hræsni ríka heimsins í loftslagsmálum”

  1. maxwell chikumbutso er búinn að finna upp á fríu rafmagni fyrir bíla, þyrlur og hús afhverju erum við ekki að nota tækni hans ?

Skildu eftir skilaboð