Þrengt að bændum heims í nafni sjálfbærni og hlýnunar jarðar

frettinIngibjörg Gísladóttir1 Comment

Einhver hefði getað ályktað að rétti tíminn til að þrengja að landbúnaði með kröfum um minni losun gróðurhúsalofttegunda væri ekki akkúrat núna þegar stríð er í gangi í Evrópu sem gæti þróast út í heimstyrjöld og verðbólga og viðskiptahindranir gera aðföng til bænda dýrari, en írska þingið hefur samþykkt og undirritað að bændur skuli minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 25%. Sú niðurstaða fékkst með samningum innan ríkisstjórnarinnar en stjórnarandstöðuflokkarnir vildu meiri skerðingar.

Sömu kröfur eru settar fram í Kanada. Í Toronto Sun má lesa að ríkisstjórn Trudeau vilji 30% minni losun níturoxíðs (N2O) sem er fjórða virkasta gróðurhúsalofttegundin á eftir vatnsgufu, CO2 og metani. Samtök bænda segja það ekki framkvæmanlegt nema með því að nota minni búfjáráburð, sem þýði minni uppskeru, minni tekjur fyrir bændur og hækkað matvöruverð í kanadískum verslunum.

Hollenskir bændur mótmæla því kröftuglega að eiga að minnka losun níturs og ammóníaks um helming fyrir 2030. Þeir sjá einnig þörfina á notkun búfjáráburðar og hafa sturtað mykju á vegi, úðað henni á byggingar, hellt niður mjólk og kveikt í heyrúllum, meðal annars. Þeir sjá fram á að margir þeirra muni þurfa að hætta búskap, jafnvel á jörðum sem hafa verið í eigu sömu ættar mann fram af manni. Politico hefur áhyggjur af því að stuðningur við bændurna geti orðið vatn á myllu hægrisinnaðra stjórnmálamanna því skilaboðin frá stjórninni eru ekki beint manneskjuleg: „Gerist sjálfbærari, flytjið ykkur um set eða hættið rekstri“.

Ef til vill ættu stjórnendur þessarra þriggja landa að stíga niður úr fílabeinsturnunum og hlusta á bændur sína. Enginn hlustaði á bændur Sri Lanka þegar þeir áttu að gerast sjálfbærir og landbúnaðarframleiðslu landsins var rústað. Reiðir menn hentu bílum stjórnmálamanna í sjóinn og flæmdu æðsta stjórnenda landsins úr landi. Vonbrigðin munu hafa orðið meiri af því að World Economic Forum lofaði því að gera Sri Lanka að ríku landi fyrir 2025. Landbúnaður hvers lands er mikilvægari en svo að einhverjum teknókrötum eða umhverfisöfgamönnum ætti að leyfast að stjórna honum án samráðs við bændur og þjóðina.

Hollenskir bændur kveikja í heyrúllum:

One Comment on “Þrengt að bændum heims í nafni sjálfbærni og hlýnunar jarðar”

Skildu eftir skilaboð