Gengjaátök settu mikinn svip á lífið í Svíþjóð, og þá sérstaklega í úthverfum Stokkhólms, á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni urðu sprengjuárásirnar alls 90 og 63 voru skotnir til bana, sá síðasti á gamlárskvöld er tvítugur maður var drepinn á McDonalds í Vällingby, þar sem hann var gestkomandi og tveir aðrir særðust. Er sá tvítugi talin hafa verið skotmarkið.
Ekkert ábyrgt samfélag getur þolað fleiri en eina banvæna skotárás á viku auk alls ofbeldisins og glæpanna sem fylgja gengjunum segir Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra. Stjórnvöld leggi nú mikla áherslu á að veita lögreglu og saksóknurum betri tól til að vinna gegn brotastarfssemi, svo sem leynilegar hleranir, að vitni megi vera nafnlaus og að lögregla megi leita vopna á tilgreindum svæðum.
Í Tidösamkomulaginu, hinum nýja stjórnarsáttmála, var barátta gegn gengjunum enda sett í forgang. Þar kom fram sú hugmynd úr smiðju Dana að tvöfalda refsingar fyrir meðlimi gengja, vísa fleiri slíkum úr landi og skoða möguleikann á að takmarka búsetusvæði manna í allt að tíu ár eftir að þeir koma úr fangelsi. Reyna skuli og að fyrirbyggja að ungmenni leiðist út í glæpi.
Drepinn á jóladagsmorgun
Þekktasta fórnarlamb gengjastríðs ársins er trúlega Mehdi ”Dumle” Sachit (frá Írak) sem var drepinn á jóladagsmorgun. Við leit á heimili hans fannst milljóna virði sænskra króna í gulli, og mörg hundruð þúsund í seðlum, skv. Aftombladet.Hann var meðlimur Dödspatrullen sem hefur átt í útistöðum við gengið Shottaz. Hinir sómölsku leiðtogar gengjanna voru vinir þar til að slettist upp á vinskapinn 2015. Árið 2019 vakti aftaka tveggja meðlima Shottaz með kúlnahríð í Herlev, Danmörku mikla athygli og fannst Dönum sem sænsku gengin væru farin að færa sig full mikið upp á skaftið. Eftir dráp Dumle, sem var grunaður um aðild á drápi rapparans Nils ”Einár” Grönberg árið áður, hefur verið mikið um sprengju- og skotárásir á Stokkhólmssvæðinu. Margar þeirra virðast beinast að mönnum sem grunaðir eru um að hafa komið Einár fyrir kattarnef og í einu tilfellinu skutu 14 og 15 ára guttar á rangt hús þar sem ellilífeyrisþegi var einn heima.
Svíar munu almennt fagna dauða Dumle. Hann tók þátt í einni viðbjóðslegu hópnauðgun í sænskri sögu, og eru þær þó ansi margar. Hermt er að fórnarlambið sé enn, 7 árum síðar, svo illa farið af áfallastreituröskun og ótta við gerendurna að hún þori ekki einu sinni að láta foreldra sína vita hvar hún býr og hitti þá aðeins einu sinni á ári á opinberum stað. Dumle var dæmdur fyrir þátttöku í hópnauðguninni árið 2020 til 200 tíma samfélagsþjónustu á grunni DNA prufu sem hann fór í eftir að hafa verið tekinn fyrir að svíkja fé út úr mörgum öldruðum. Í drottningarviðtali hjá Ninu Svanberg, Expressen 2021 sagði hann frá spennandi lífi sínu í gengi og gengjastríðinu. Hún minntist á að hann hefði fengið dóma fyrir gróft ofbeldi og árásir auk fíkniefnabrota, en ekki á hópnauðgunina og fékk skömm fyrir. Í viðtalinu segir hann að ekkert geti stöðvað átökin og menn eigi bara að leyfa þeim að drepa hvern annann þar til enginn sé eftir.
Rapparinn Nils Grönberg
Rapparinn Nils Grönberg, sem var þekktur undir listamannanafninu Einár, varð ekki nema 19 ára. Hann rappaði um vopn, eiturlyf og glæpamennsku. Hann var skotinn til bana af stuttu færi í Stokkhólmi í október 2021 viku áður en hann átti að vitna í mannránsmáli sínu. Í apríl 2020 var honum rænt og rændur gullkeðjum sínum og Rolex úri og haldið föngnum í marga klukkutíma. Fyrir því stóð glæpagengið Vårbynätverket sem hinn sænsk marokkóski Chihab Lamouri stjórnaði. Rappararnir Yasin Abdullahi Mahamoud (frá Sómalíu) og Haval Khalil (sem er ættaður frá Kurdistan) hlutu báðir dóma fyrir mannránið og á gamlárskvöld sprakk sprengja í andyri blokkarinnar þar sem Haval býr - virðist vera hefnd fyrir Einár, auk drápsins á Dumle sem var grunaður um að leiða Einár í gildru.
Fleiri gengjarapparar koma við sögu. Samkvæmt Samnytt þá var einn þeirra er handtekinn var fyrir sprengjuárás á fjölbýlishús í vesturhluta Stokkhólms þann 1. janúar, rapparinn Z.E. (pólskur) og kenning lögreglunnar er sögð vera að árásin hafi beinst að gengjarapparanum 1.Cuz (frá Sómalíu) sem hefur komið fram með Gretu Tunberg í baráttu hennar gegn kapítalismanum, feðraveldinu og hlýnun jarðar. Sænska ríkisútvarpið hefur lofað 1.Cuz mjög fyrir tónlist sína sem gyllir líf gengjakrimmanna og fengið á sig gagnrýni fyrir að spila gengjarapp yfirleitt og styrkja með því sjálfsmynd gengjameðlimanna á þeim tímum er Svíar vilja brjóta gengin á bak aftur.
Samkvæmt MIPEX 2020 (Migrant Integration Policy Index) þá fá Svíar flest stig allra þeirra 56 þjóða er þeir leggja mat á hvernig standa sig hvað aðlögun innflytjenda varðar, eða 86 stig af 100. Stuðningur við innflytjendur virðist því vera mun meiri en t.d. hérlendis. Er vandamálið kannski að þeir koma margir úr íhaldssömum bókstafstrúarþjóðfélögum (íslam), finna sig engan veginn í hinu sænska frjálslyndi, fyrirlíta Svía og gera því uppreisn gegn kerfinu? Svo hjálpar ekki að þeim hefur verið leyft að safnast saman í gettóum á bótum, af því trúlega að 90% íbúa þar hefur þakkað Sossunum og fylgiflokkum þeirra gjafmildina með því að kjósa þá.
One Comment on “Níutíu sprengjuárásir og 63 skotnir til bana í Svíþjóð 2022”
Allt í lagi… 63 voru skotnir til bana.
En hve margir voru myrtir með frjálsri aðferð? Er það eitthvað vandræðalega há tala?