Hinn margverðlaunaði rannsóknarblaðamaður Gerald Posner fjallar í nýrri forsíðugrein í Forbes tímaritinu um bandaríska auðmanninn Jim Winston, sem sett hefur á fót styrktarsjóð sem ætlað er að vinna gegn notkun ungmenna á samfélagsmiðlum. Winston er sálfræðingur og hefur starfað mikið með bæði fíklum og föngum.
Áhugi hans á málefninu vaknaði þegar hann fór í fyrsta sinn með son sinn í nýjan skóla og veitti því athygli að unglingarnir sem urðu á vegi hans gátu ekki haft augun af símunum. Í ljósi reynslu sinnar af fíknisjúkdómum ályktaði hann að börnin væru í raun í gíslingu snjalltækjanna.
Heili unglinga er ómótaður og mjög móttækilegur fyrir áhrifum samfélagsmiðlanna, og ofnotkun þeirra mótar þroska heilans. Unglingurinn hefur ekki fulla stjórn á framheilanum, sem meðal annars stjórnar félagslegum samskiptum og viðbrögðum. Þetta er megináhyggjuefni Winstons. Samfélagsmiðlar hafa svipuð áhrif á heila unglinga og eiturlyf og áfengi segir hann. Endurgjöfin gegnum miðlana verkar á svipaðan hátt og hjá fíkli sem bíður sífellt í eftirvæntingu eftir næsta skammti. Þetta drepur niður athyglisgáfuna. Barn sem fæðist í dag og lifir í gegnum samfélagsmiðla verður taugalíffræðilega ófært um að lesa bókmenntaverk á borð við Stríð og frið eftir Tolstoy á fullorðinsárum.
Foreldrar gera sér enga grein fyrir þeim gríðarlegu áhrifum sem samfélagsmiðlar og snjalltækjavæðing hafa á heila barna þeirra. Þeir ættu að vera dauðhræddir. Winston fjármagnar nú sérstakt námskeið við University of North Carolina sem fjallar um áhrif samfélagsmiðla á heila unglinga, í samvinnu við sálfræðiprófessorinn Mitch Prinstein og fleiri sálfræðinga. Hann hefur jafnframt gefið út leiðbeiningar fyrir foreldra og upplýsingavefi fyrir kennara og leiðbeinendur. Hann reiknar með að Facebook með allt sitt fjármagn muni berjast á móti.
Unglingsárin eru mikilvægasta tímabilið þegar kemur að þroska heilans segir Winston. Samfélagsmiðla- og snjalltækjavæðingin veldur alvarlegum vandamálum varðandi tilfinningaþroska, þróun gagnrýninnar hugsunar og samskipti unglinga. Þeir hafa ekki þroska til að ráða við áreitið sem miðlarnir valda og þetta nýta stórfyrirtæki á borð við Facebook sér óspart.
Mannkynið stendur á tímamótum segir Prinstein og fullyrðir að eftir 50 ár muni fólk velta alvarlega fyrir sér hvers vegna ekki var gengið harðar fram í að hamla áhrifum samfélagsmiðla á þroska barna og ungmenna. Baráttan mun taka tíma, sagði Gerald Posner, aðspurður um horfurnar. Því miður þýðir það að mikil hætta er á að næsta kynslóð verði einnig fórnarlamb samfélagsmiðlanna.
Heimild: Forbes