Lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna óveðurs frá klukkan 17 í dag

frettinInnlendarLeave a Comment

Gefnar hafa verið út rauðar, appelsínugular og gular viðvaranir vegna veðurs. Fyrsta viðvörunin tekur gildi kl. 16 í dag, mánudag og sú síðasta rennur út kl. 19 á morgun, þriðjudag. Alls hefur spádeildin gefið út 39 viðvaranir fyrir næsta sólarhringinn eða svo.

Ríkislögreglustjóri í samráði við alla lögreglustjóra á landinu ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna frá klukkan 17:00 í dag. Samhæfingarmiðstöð Almannavarna verður starfrækt frá og með þá og fram til morguns.

Lægð hefur verið í foráttu vexti og hefur nálgast landið úr suðvestri. Síðdegis versnar veðrið ört, og í kvöld verður suðaustan rok eða ofsaveður á suðurhelmingi landsins með talsverðri rigningu, slyddu eða snjókomu og hita rétt yfir frostmarki. Veðrið versnar örlítið seinna norðanlands, en þar verður kominn austan og suðaustan stormur eða rok með snjókomu og skafrenningi nálægt miðnætti.

Í nótt gengur lægðin til norðurs yfir vestanvert landið, og þá snýst í suðvestan og vestan 18-28 m/s með rigningu eða snjókomu sunnanlands, hvassast við suðvesturströndina. Í fyrramálið snýst einnig í hvassa suðvestanátt norðantil á landinu og jafnframt styttir upp um landið norðaustanvert. Seinnipartinn á morgun dregur svo úr vindi með éljum sunnan- og vestanlands og kólnar smám saman.

Ekkert ferðaveður, líkur á foktjóni og einnig vatnstjóni vegna leysinga

Innan tímabils þeirra viðvarana sem gefnar hafa verið út, má gera ráð fyrir talsverðri rigningu eða snjókomu. Snjórinn getur valdið ófærð á götum og fjallvegum og því ekkert ferðaveður meðan viðvaranir eru í gildi. Rigning og leysing getur valdið vatnselg og því þarf að reyna að tryggja að vatn komist í fráveitukerfi og til að forðast vatnstjón. Eins eru líkur á foktjóni og er fólki ráðlagt að ganga frá lausum munum. Verktökum er bent á að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.

Skildu eftir skilaboð