Enn ein hlutdræga Ivermectin rannsóknin?

frettinPistlarLeave a Comment

Erling Óskar Kristjánsson verkfræðingur skrifar: 

Ég er ekki lyfjalæknir og hef ekki sérfræðiþekkingu á lyfjum, svo ég mæli hvorki með né gegn notkun tiltekinna lyfja. Ég hef ekki gerst talsmaður þess að lyfið sem má ekki nefna verði tekið í notkun. Þetta er ekki mín ákvörðun, en mér finnst áhugavert að fylgjast með umræðunni og þeim rannsóknum sem koma fram.

Ég hef séð rannsóknir sem benda til þess að lyfið virki, og ég hef séð rannsóknir sem draga virkni þess í efa. Mér sýnist hins vegar ekkert benda til þess að lyfið sé skaðlegt, ef það er notað rétt. Það virðist því vera meinlaust í versta falli, og í besta falli hjálpsamt. Ég skil því ekki hvers vegna notkun lyfsins, í samráði við lækni, er bönnuð.

Um rannsóknina

Nú berast fréttir af enn einni rannsókninni sem ætlað er að sanna, í eitt skipti fyrir öll, að lyfið sé gagnslaust gegn veirunni fræknu. Við fyrstu sýn er framsetning á niðurstöðunum sannfærandi. Ég ákvað að rýna betur í rannsóknina, sem er meðfylgjandi.

Í stuttu máli er þetta slembiröðuð íhlutunarrannsókn (RCT), án lyfleysu og þar með ekki tvíblind. Tæplega 500 þátttakendur, allir yfir fimmtugu og með a.m.k. einn undirliggjandi sjúkdóm, fengu jákvætt PCR próf og sýndu einkenni COVID-19. Allir fengu hefðbundna heilbrigðisþjónustu, en að auki fékk helmingur þeirra Ivermectin (0,4 mg/kg á dag í 5 daga).

Niðurstöður

Helstu niðurstöður voru þær að lyfjagjöfin minnkaði ekki líkurnar á að veikindi hjá viðkomandi myndu versna. Veikindin versnuðu hjá 21,6% þeirra sem fengu Ivermectin en 17,3% þeirra sem fengu það ekki. Það var ekki tölfræðilega marktækur munur á milli hópa (p-gildi = 0,25). Þetta eru þær upplýsingar sem fjallað er um í fréttum.
Þetta p-gildi þýðir að það eru 25% líkur á að munurinn á milli hópa hafi verið tilviljun. Það er því nokkur óvissa um þessar niðurstöður. Niðurstöður eru tölfræðilega marktækar ef p-gildi er minna en 0,05.

En hvað fleira kom í ljós?
Ivermectin-hópurinn komu betur út í öllum öðrum niðurstöðum. Vissulega var ekki marktækur munur á milli hópa þar heldur, en við skulum skoða það nánar.

Líkur á að lenda á gjörgæslu minnkuðu um 22% (p-gildi 0,79):
2,4% þeirra sem fengu Ivermectin
3,2% þeirra sem fengu hefðbundna meðferð
Það eru 79% líkur á að munurinn á milli hópa sé tilviljun.

Líkur á að lenda í öndunarvél minnkuðu um 59% (p-gildi 0,17):
1,7% þeirra sem fengu Ivermectin
4,0% þeirra sem fengu hefðbundna meðferð
Það eru 17% líkur á að munurinn á milli hópa sé tilviljun.

Líkur á andláti minnkuðu um 69% (p-gildi 0,09):
1,2% þeirra sem fengu Ivermectin (3 einstaklingar)
4,0% þeirra sem fengu hefðbundna meðferð (10 einstaklingar)
Það eru einungis 9% líkur á að munurinn á milli hópa sé tilviljun.

Nú minni ég á að niðurstöður væru tölfræðilega marktækar ef p-gildið væri minna en 0,05. Við sjáum að samdráttur í andlátum er nálægt því að vera tölfræðilega marktækur skv. skilfreiningu.
Ég hef ekki framkvæmt næmnigreiningu, en í fljótt á litið er útlit fyrir að ef andlát í Ivermectin-hópnum hefðu verið einu færri, eða ef andlát í hinum hópnum hefðu verið einu fleiri, þá hefðu niðurstöðurnar verið tölfræðilega marktækar.

M.v. fjölda þátttakenda og það hlutfall fólks sem lendir í öndunarvél, og það hlutfall sem lætur lífið, hefði samdrátturinn þurft að vera um 80% til að munurinn gæti verið tölfræðilega marktækur. Það þyrfti einfaldlega stærri rannsókn til þess að komast að því hvort lyfið dragi úr líkum á þessum útkomum t.d. um 50-70%, sem væri samt feykilega gott.
Í raun mætti túlka þessar niðurstöður sem svo að lyfið lofi góðu! Rannsakendur ættu að kalla eftir stærri tvíblindri slembiraðaðri íhlutunarrannsókn með lyfleysu.

Gagnrýni

Rannsóknir eru sjaldan fullkomnar. Það er því ekki óeðlilegt að eitthvað sé ábótavant. Fyrir mér standa tvö atriði út úr.

1. Inclusion/exclusion criteria:
Það er undarlegt hvernig valið var í rannsóknina.
Eins og flestir sem hafa kynnt sér umræðuna um Ivermectin vita, á lyfið að virka best ef það er tekið strax og viðkomandi smitast (þegar maður er einkennalaus), eða í síðasta lagi strax og einkenni byrja að koma fram. Rannsakendur útilokuðu hins vegar einkennalausa þátttakendur. Þannig misstu þeir mögulega af fjölda manns sem áttu eftir að veikjast illa, og hefðu getað notið góðs af lyfjagjöf.
Þátttakendur voru sem sagt allir með einkenni þegar þeir byrjuðu að taka lyfið, ýmist með eða án vísbendinga um lungnabólgu. Það máttu vera allt að 7 dagar síðan einkenni komu fram. Talsmenn Ivermectin myndu segja að það væri of seint að byrja að taka lyfið þegar maður er búinn að vera veikur í viku, og/eða kominn með lungnabólgu. Lyfið myndi gera lítið á þessum tímapunkti. Því er ætlað að vera notað sem snemmmeðferð.

2. Hlutdrægni
Rannsakendur leggja ofuráherslu á að lyfið hafi ekki komið í veg fyrir að veikindin hafi versnað. Þeir skauta algjörlega fram hjá öðrum mikilvægum niðurstöðum sem lofa góðu. Í stað gera þeir í raun lítið úr þeim niðurstöðum.
Ég hvet fólk til að lesa greinina. Hlutdrægnin endurspeglast m.a. í tóninum á innganginum. Þar lofsama rannsakendur bóluefnin og aðrar sóttvarnaraðgerðir. Þeir fjalla sérstaklega um rannsóknir sem draga virkni Ivermectin í efa, og að þrátt fyrir niðurstöður þeirra skrifi margir læknar upp á þetta lyf við COVID-19, þvert á ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Það hljómar því eins og þeir ætli sér að sanna, í eitt skipti fyrir öll, að lyfið sé gagnslaust.
Ég vil ekki draga heiðarleika rannsakenda í efa, en hlutdrægnin er ekki traustvekjandi, og það hjálpar ekki að rannsóknin hafi ekki verið tvíblind. Í slíkum tilfellum getur hlutdrægni rannsakenda haft áhrif á niðurstöður.
Annars er skýrslan vönduð og framsetning virkilega skýr. Það er ljóst að það var mikil vinna sett í þessa rannsókn. Rannsakendur eiga þakklæti skilið fyrir sitt framlag.

Ég minni á að ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði og er hvorki að mæla með né á móti notkun þessa lyfs. Ég hef stúderað tölfræði, beitt tölfræðiprófum og þekki ágætlega til vísindarannsókna. Það verður áhugavert að lesa túlkun annarra á þessari rannsókn. Athugasemdir eru vel þegnar.

Heimild

Skildu eftir skilaboð