RÚV birti ekki fréttir, en framdi glæpinn

frettinPistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari skrifar:

Kjarninn og Stundin birtu fréttir upp úr stolnum einkagögnum Páls skipstjóra Steingrímssonar. Gögnin fengu Kjarninn og Stundin frá RÚV sem skipulagði aðförina. Páli var byrlað eitur kvöldið 3. maí. Aðfaranótt 4. maí var hann sendur með sjúkraflugi frá Akureyri á gjörgæslu í Reykjavík. Yfirstjórn RÚV vill fella niður lögreglurannsókn á glæpnum og beitir fyrir vagn sinn stjórnmálamönnum og fjölmiðlum.

Fjórum dögum áður en Páll var lagður á gjörgæslu var fréttamaður RÚV, Aðalsteinn Kjartansson, fluttur á Stundina til að vinna úr væntanlegum gögnum úr síma Páls.

Síma Páls var stolið eftir að hann missti meðvitund og fór í öndunarvél vegna eitrunar.

Sími Páls var afritaður á Efstaleiti. Eftir það var símatækinu skilað á sjúkrabeð hans. Glæpurinn var skipulagður með það í huga að Pál skyldi ekki að gruna að síma hans var stolið og skilað aftur meðan hann var meðvitundarlaus.

Aðalsteinn á Stundinni og Þórður Snær á Kjarnanum biðu í rúman hálfan mánuð með birtingu frétta úr snjallsíma Páls eða til 21. maí. Skipulagið gerði ráð fyrir að eftir hálfan mánuð væri snjalltækið búið að eyða upplýsingum um staðsetningu á meðan tækið var í þjófahöndum. En eftir að Páll komst til meðvitundar grunaði hann að ekki væri allt með felldu. Hann slökkti á símtækinu til að gögn um staðsetningu eyddust ekki. Þegar skipstjórinn kærði eitrun og stuld fékk lögreglan símtækið til rannsóknar.

Upplýst er að þrír blaðamenn Kjarnans og Stundarinnar eru grunaðir. Einnig Þóra Arnórsdóttir á RÚV. Líklega eru fleiri af RÚV með stöðu sakborninga í lögreglurannsókninni en nöfn þeirra eru ekki staðfest.

Stefán útvarpsstjóri og Heiðar fréttastjóri RÚV birta yfirlýsingu í gær um mikilvægi þess að fjölmiðlar fái óáreittir að birta fréttir. RÚV birti ekki fréttir úr stolnum einkagögnum Páls skipstjóra, það gerðu Kjarninn og Stundin. Verkskiptingin gekk út á að grunur félli ekki á RÚV ef upp kæmist að gögnin væru illa fengin. Þetta var varúðarráðstöfun. Páll skipstjóri átti að vera grunlaus um að gögnin væru komin úr hans síma. En símtækið skráði ferðir sínar upp á Efstaleiti. Lögreglan hefur upplýsingarnar. Stefán og Heiðar vilja ekki að þær upplýsingar komi fram. Það á að stöðva lögreglurannsóknina með öllum tiltækum ráðum.

RÚV skipulagði byrlun og þjófnað. Það eru alvarlegir glæpir. Yfirstjórn RÚV reynir núna að hindra framgang réttvísinnar. Það er líka glæpur.

Skildu eftir skilaboð