Til minningar um lýðræðið

frettinPistlar1 Comment

Eft­ir Arn­ar Þór Jóns­son lögmann, greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst 2022.

„Frammi fyr­ir þessu rann smám sam­an upp fyr­ir kjós­end­um að stjórn­mál­in höfðu umbreyst í leik­lest­ur og stjórn­mála­menn­irn­ir í brúður.“

Þótt ekkert fæðingarvottorðt­orð sé til er al­mennt talið að lýðræðið hafi fæðst í Grikklandi á 5. öld f. Kr. og að vöggu þess sé helst að finna í borg­rík­inu Aþenu. Á æsku­skeiði átti lýðræðið góða spretti í Róm, áður en valdagírug­ir menn komu á ein­ræði með múgæs­ing­ar­starfi, ógn og of­beldi. Eft­ir það sat lýðræðið lengi í ösku­stó ann­ars stjórn­ar­fars. Minn­ing­in um sól­bjarta daga mál­frels­is og sjálf­stæðis dofnaði en hvarf þó ekki með öllu. Jafn­vel þótt þessi minn­ing hafi orðið óljós á myrk­ustu köfl­um þess­ara fyrstu alda var það þó kannski ein­mitt óljós enduróm­ur­inn sem hélt lífi í glóðunum þegar út­litið var sem dekkst. Þrátt fyr­ir vanþroska og mót­læti braust andi lýðræðis­ins stund­um eft­ir­minni­lega í gegn. Til þeirr­ar sögu má nefna stofn­un Alþing­is árið 930, Magna Carta (1215) o.fl.

Á þess­um grunni hold­gerðist lýðræðis­and­inn í Englandi á 17. öld eins og sjá má m.a. í Bill of Rights (1689) sem markaði þátta­skil. Lýðræðið fann ræt­ur sín­ar og styrkt­ist með hverri raun. Segja má að átök næstu 100 ára hafi falið í sér dýr­mæta þjálf­un hvað varðar bæði út­hald og styrk. Á þess­um mót­un­ar­ár­um naut lýðræðið leiðsagn­ar úr­vals kenn­ara. Við leiðarlok ber að minn­ast sér­stak­lega á John Locke (1632-1704) og bók hans, Rit­gerð um rík­is­vald , sem reynd­ist lýðræðinu traust hand­bók í átök­um og eft­ir­mál­um banda­ríska frels­is­stríðsins (1765-1791) og frönsku bylt­ing­ar­inn­ar (1789). Ekki verður skilið við þetta tíma­bil án þess að minn­ast á Sjálf­stæðis­yf­ir­lýs­ingu Banda­ríkj­anna (1776), þar sem þrír grund­vall­arþræðir lýðræðis­ins, upp­runi, mark­mið og til­gang­ur, eru glæsi­lega fléttaðir sam­an: 1) Guð skapaði alla menn jafna og gaf þeim rétt til lífs, frels­is og til að leita ham­ingj­unn­ar. 2) Meg­in­til­gang­ur með öllu stjórn­ar­fari er að verja þessi rétt­indi. 3) Ef ríkið reyn­ir að synja mönn­um um þenn­an rétt er fólki heim­ilt að gera upp­reisn og koma á fót nýrri stjórn. Sam­an mynda þess­ir þrír þræðir erfðamengi lýðræðis­ins, anda þess og sál, sem síðar má von­andi vekja til nýs lífs.

Á blóma­skeiði sínu átti lýðræðið glæst­ar stund­ir og fóstraði margt það besta sem mönn­um hef­ur tek­ist að leiða fram, með því að virkja sköp­un­ar­kraft, sam­taka­mátt o.fl. Stofn­un ís­lenska lýðveld­is­ins 1944 var mjög í þess­um anda, hug­djörf ákvörðun fá­mennr­ar en stór­huga þjóðar. Því verður þó ekki á móti mælt, að lýðræðið glímdi alla tíð við meðfædda galla og var t.d. óþægi­lega ginn­keypt fyr­ir hvers kyns skrumi.

Í alþjóðlegu sam­hengi leiddu veik­leik­ar lýðræðis­ins til þess að það féll ít­rekað fyr­ir vara­söm­um mönn­um, sem kunnu að spila á strengi sem leiddu fólk í gildru harðstjórn­ar, þar sem járnkrumla hert­ist um æðakerfi þjóðlífs­ins þar til ekk­ert varð eft­ir annað en stirðnuð skel og líf­laus leik­mynd þar sem and­laus­ir leik­ar­ar þuldu upp sömu setn­ing­arn­ar í mis­mun­andi út­gáf­um. Stjórn­mál­in urðu dauf og líf­laus, ekk­ert kom leng­ur á óvart. Hver ein­asta lína var skrifuð af ósýni­leg­um baktjalda­mönn­um og ótt­inn knúði alla til að vanda framb­urð og lát­bragð í hví­vetna, því sér­hvert frá­vik frá text­an­um gat varðað at­vinnum­issi og brottrekstri af sviðinu.

Í þessu um­hverfi ent­ust þeir lengst í stjórn­mál­um sem nutu sviðsljóss­ins mest og höfðu kannski minnst fram að færa frá eig­in brjósti, en sýndu hæfni í að end­ur­taka hugs­an­ir annarra af ein­læg­um sann­fær­ing­ar­krafti. Þegar þátt­taka í stjórn­mál­um var ekki leng­ur þjón­ustu­hlut­verk, held­ur starfs­fer­ill, náðu þeir lengst sem spurðu engra spurn­inga, voru reiðubún­ir að kynda und­ir óvild manna í garð sam­borg­ara sinna, veigruðu sér ekki við að hóta þeim sem sýnd­ist skorta und­ir­gefni og hikuðu ekki við að fram­fylgja fyr­ir­skip­un­um með vald­beit­ingu. Frammi fyr­ir þessu rann smám sam­an upp fyr­ir kjós­end­um að stjórn­mál­in höfðu umbreyst í leik­lest­ur og stjórn­mála­menn­irn­ir í brúður. Niður­læg­ing­in var svo mik­il og svik­in svo sár­græti­leg að eng­inn vildi viður­kenna að þetta væru dauðamörk. Eng­inn nema börn og stöku eldri borg­ar­ar höfðu ein­lægni til að spyrja: „Til hvers að taka þátt í póli­tík ef þú ætl­ar ekki að segja það sem þér sjálf­um finnst?“

Ef marka má sögu lýðræðis­ins mun ekk­ert breyt­ast fyrr en menn rísa upp gegn of­rík­is­öfl­un­um og hafna and­leys­inu í þeim til­gangi að verja líf sitt og frelsi til gagn­rýn­inn­ar hugs­un­ar, mál­frelsi sitt og frelsi til at­hafna, sam­vinnu, upp­bygg­ing­ar og friðar. Aðeins þannig get­ur lýðræðið vaknað til nýs lífs. Hafa Íslend­ing­ar þrek til þess eða kjósa menn enn að dvelja sof­andi á draumþing­um og hlusta hálfsof­andi á lé­leg hand­rit leik­les­in á öll­um sviðum einka­lífs og þjóðlífs?

Höf­und­ur er sjálf­stætt starf­andi lögmaður og formaður Fé­lags sjálf­stæðismanna um full­veld­is­mál. arn­art­[email protected]

One Comment on “Til minningar um lýðræðið”

  1. Verðugt er að geta hér í sögunni þess lýðræðis, sem stóð lengi meðal germanskra þjóða og alþingi íslendinga er framhald af, sbr. lýsingu í riti mínu Lýðræði með raðvali og sjóðvali í kafla II.D.

Skildu eftir skilaboð