Á að þjarma að rússneskum almenningi til að refsa Pútín?

frettinPistlar1 Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Í dag birtist ritstjórnargrein í Morgunblaðinu þar sem kallað er eftir að rússneskir ferðamenn fái ekki að ferðast til Evrópu. Tilvitnun:

Rúss­ar leita því til Finn­lands, Lett­lands og Eist­lands og fljúga þaðan til áfangastaða sunn­ar í álf­unni án þess að hafa mikl­ar áhyggj­ur af þeim refsiaðgerðum sem eiga að bíta á Rúss­land. Flug­bannið er ein­mitt dæmi um refsiaðgerð sem al­menn­ing­ur í Rússlandi finn­ur óhjá­kvæmi­lega fyr­ir.

Þá hafa einnig verið brögð að því að sum­ir af „ferðamönn­un­um“ sem lagt hafa leið sína til Finn­lands hafi reynt að fara þaðan aft­ur heim til Rúss­lands með gamla tölvuíhluti og annað slíkt, sem nú er bannað að flytja til lands­ins vegna stríðsins. Það, að veita áfram ferðamanna­á­vís­an­ir fyr­ir allt Schengen-svæðið, er því bara enn ein leiðin sem Rúss­ar geta reynt að nýta sér, á marg­vís­lega vegu, til þess að fara í kring­um áhrif refsiaðgerðanna.

Hér er í raun og veru sagt að ferðamenn geti gatað refsiaðgerðir gegn Rússum með því að fylla ferðatöskur sínar af gömlum tölvuíhlutum og öðru slíku. Magnað. Ég veit ekki betur en að flestir þessara tölvuíhluta séu framleiddir í Kína og að Rússar geti keypt þá nýja þaðan.

Nei, gamlir tölvuíhlutir eru ekki að fara bjarga neinu ef Rússar eru í raun í einhverjum vandræðum. Boðskapurinn hérna er að þjarma að rússneskum almenningi því það muni á einhvern hátt leiða til vandræða fyrir Pútín. Banna Rússum að ferðast til Evrópu og halda því fram að þar með muni Rússar ekki ferðast neitt, ekki einu sinni með Wizz Air til Miðausturlanda. Þeir verði eirðarlausir og byrji að grýta rússnesku forsetahöllina, eða eitthvað.

Viðskiptaaðgerðir gegn rússneskum almenningi, þar sem honum er meinað að ferðast til Evrópu, munu ekki gera annað en auðvelda rússneskum yfirvöldum að þjappa þjóð sinni saman gegn sameiginlegum andstæðingi. Við búum til hatur á Evrópu sem mun torvelda friðsamleg samskipti og viðskipti í framtíðinni. Við ýtum Rússum í fang Miðausturlanda, Kína og Afríku.

Viðskiptaaðgerðir bitna sjaldnast á yfirvöldum. Gleymum því ekki. Þær bitna fyrst og síðast á óbreyttum borgurum. Fræg er hungursneyðin sem Bandaríkin og bandamenn kölluðu yfir Írak á meðan þáverandi forseti þeirra reisti hallir. Erum við að boða slíkt, aftur?

One Comment on “Á að þjarma að rússneskum almenningi til að refsa Pútín?”

  1. Nei það á allsekki að þjarma að rússneskum almenningi, þetta fólk hefur ekkert gert af sér.

Skildu eftir skilaboð