Hormónar og hugarfar

ThordisPáll Vilhjálmsson, Transmál1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Trans er hugarástand einstaklings sem telur meðvitund sína af öðru kyni en líkamann. Meðvitund, að því marki sem hún er hugsun, er óefnisleg. Líkami er efnislegur og kemur aðeins í tveim kynjum, karl- og kvenkyni.

Trans er ferðalag frá líkamlegri og handfastri staðreynd inn í heim mótsagna óefnislegrar hugsunar.

Hugsuninni eru fá, ef nokkur, takmörk sett. Hver og einn getur ímyndað sér hvað sem vera skal. Í smásögu Franz Kafka, Hamskiptin, vaknar sölumaðurinn Gregor Samsa einn góðan veðurdag í líki risavaxinnar bjöllu. Margvíslegar hryllingssögur, ætlaðar til skemmtunar, byggja á stefi hamskipta.

Ímyndunin er fjörmeiri hjá ungmennum en þeim sem eldri eru. Ungmenni nota ímyndunina til að máta sig við veruleikann. Á leikskólaaldri er alsiða að börn séu í mörgum hlutverkum yfir daginn, oftast tengd söguhetjum í ævintýrum en einnig foreldrum. Í íþróttum á unglingsaldri eru fyrirmyndirnar snillingar af holdi og blóði, t.d. Messi.

Ímyndin að vitundin sé af öðru kyni en líkaminn styðst stundum við þann flugufót að sumar stúlkur eru karlmannlegar og sumir drengir kvenlegir. En það er hluti af breytileika tegundarinnar. Rétt eins og sumir eru hávaxnir en aðrir lágvaxnir. Á frávikum eru samt mörk. Enginn er fjórir metrar á hæð og enginn fæðist með svínshöfuð á mannslíkama - nema í skáldskap.

„Ég ætla að vera eins og ...“ er hversdagsleg hugsun hjá einstaklingi milli tektar og tvítugs. Maður setur sig í spor fyrirmyndarinnar, stælir hana. Lykilhluti setningarinnar er „eins og“ Maður getur ekki orðið fyrirmyndin. En maður vill líkjast henni, temja sér siði og háttu manneskju sem er manni leiðarljós. Ungmenni finna sér sína syllu í lífinu með eftirtekt hvernig aðrir haga sínu lífi.

Með reynslu og þroska verða einstaklingarnir sjálfstæðari, “eins og-hugsunin“ hættir að skipta máli. Maðurinn er það sem hann fæddist með auk uppeldis og plús það sem hann gerði úr sjálfum sér.

Trans væri saklaus ímyndarleikur ungmenna ef ekki væri fyrir þá sök að læknisfræði nútímans getur breytt ásýnd líkamans þannig að kvenlíkami fái karllæg einkenni og öfugt. Áfram er líkaminn ýmist kvenkyns eða karlkyns. Litningunum er ekki breytt, en ásýndin er önnur.

Sá sem breytir kyni sínu getur orðið “eins og“ hitt kynið. En maður verður ekki annað kyn en það sem maður fæddist með. Valið stendur á milli þess að lifa eftirhermulífi eða raunlífi.

One Comment on “Hormónar og hugarfar”

  1. Kynin, karlkyn og kvenkyn, karl og kona, eru líffræðilegur veruleiki. Þau er sköpuð af visku og vilja Guðs
    ( 1. Mós. 1. 27). Sjá Trúfræðslurit Rómversk Kaþólsku kirkjunnar 369.

    Það er því uppreisn gegn náttúrulegum og guðlegum lögum og alvarleg synd að karl geri tilraun til að verða kona með því að limlest sjálfan sig, eða jafnvel með því að lýsa því yfir að hann sé kona, eða að kona geti á sama hátt reynt að verða karlmaður.

    Sömuleiðis er það alvarleg synd að halda því fram að borgaralegt yfirvald hafi skyldu eða rétt til að starfa eins og slíkir hlutir væru eða geta verið mögulegir og lögmætir. Sjá Trúfræðslurit Kaþólsku kirkjunnar, 2297.

    Allar kristnar kirkjur og allir þeir sem kalla sig kristna hljóta að taka undir þetta.

Skildu eftir skilaboð