Misbeiting fjórða valdsins

frettinPistlar


Misbeiting fjórða valdsins

Vald leiðir oft til spillingar og algert vald leiðir til algerrar spillingar”, er haft eftir 19. aldar fræðimanninum og  stjórnmálamanninum Acton barón. Í anda þeirrar ádeilu hefur temprun eða takmörkun á opinberu valdi verið órjúfanlegur þáttur í lýðræðisþróun Vesturlanda og baráttu borgaranna gegn pólitískri spillingu. Þrígreining ríkisvaldsins, svo sem mælt er fyrir í stjórnarskránni, hefur það hlutverk að tempra og takmarka opinbert vald yfir borgurunum, þannig að ein grein ríkisvaldsins veiti hinum greinum þess aðhald og takmörkun á valdi. Í sögulegu ljósi hafa fjölmiðlar svo öðru fremur það hlutverk að veita hinum þremur greinum ríkisvaldsins aðhald og eftirlit gagnvart kjósendum og öllum almenningi. Fjölmiðlar hafa um höndum mikið vald sem fáar reglur gilda um og eru þeir valdshafar ekki kjörnir af almenningi.

Með auknu einstaklings- og viðskiptafrelsis hafa völd í auknum mæli færst til lögaðilja og áhrifamikilla einstaklinga, -einkum í atvinnulífinu. Hefur þar með hlutverk fjölmiðla í auknum mæli færst í þá átt að veita fyrirtækjum og áhrifafólki í samfélaginu aðhald og eftirlit, ekki síst vegna þeirra valda sem þeir hafa yfir almennum borgurum og almannahagsmunum. Undanfarin ár hafa fjölmiðlar hins vegar beitt völdum sínum í auknum mæli gegn berskjölduðum, valdalausum og áhrifalausum borgurum, að því er virðist eingöngu til að auka áhorf, lestur og auglýsingatekjur.

Á undanförnum árum hafa fjölmiðlar alið á sundrungu í samfélaginu með að etja einum þjóðfélagshópi gegn öðrum. Er a.m.k. freistandi að álykta að þar liggi fyrst og fremst hagnaðarsjónarmið að baki. Gerðar eru fréttir um hvers kyns persónuníð og óhróður sem fyrirfinnst á samskiptamiðlum sem jafnan er beint gegn körlum almennt eða nafngreindum karlkyns einstaklingum. Beðið er eftir viðbrögðum á samfélagsmiðlum og gera fjölmiðlar svo frétt um það, þar til allsherjar deilur hafa skapast um tiltekin mál. Allir tapa á þessari háttsemi fjölmiðla, nema fjölmiðlarnir sjálfir. Þeir fá athygli og græða pening.

Nærtækast er að nefna Me too byltinguna. Grátkór femínismans kyrjar í sífellu möntruna að trúa eigi öllum þeim konum sem segjast vera þolendur. Er úr orðinn rétttrúnaður sem bannað er að gagnrýna, -jafnvel þótt hann gangi gegn inntaki stjórnarskrár og almennra mannréttinda. Fjöldi karlmanna hafa verið “teknir af lífi” á undanförnum misserum, sem eiga það sameiginlegt flestir að hafa hvorki verið kærðir, ákærðir eða dæmdir fyrir nokkurn hlut. Í miðri blóðugri byltingunni má finna, fréttum samkvæmt, a.m.k. eitt dæmi að fótboltamaður hafi svipt sig lífi í kjölfar þess að hafa verið kærður fyrir kynferðisbrot. Sú frétt hefði e.t.v. átt að skapa umræðu um hversu mikilvægt að rétt sé staðið að slíkum sakamálum, en svo virðist að fjölmiðlum og almenningi hafi verið slétt sama um örlög þessa manns.

Enginn annar en kærandin sjálfur mun nú vita með sanni hvort hann hafi verið sekur eða saklaus. Múgæsingur þessi náði hámarki í vor þegar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og Víðir Reynisson, lögreglumaður og deildarstjóri almannavarna, komu fram í myndbandi áhrifavalds. Í myndbandinu sögðust þau trúa þeim sem segðust vera þolendur. Málið var reyndar kært til umboðsmanns Alþingis, enda með ólíkindum að hátt settur lögreglumaður og sjálfur dómsmálaráðherra láti svona út úr sér.

Voru þetta skilaboð til dómara og/eða lögreglunnar? Engum gat dulist að málið varðaði hræðilega umræðu um Ingó Þórarinson, tónlistamann. Umboðsmaður vísaði málinu frá sér, en ekki fylgir sögunni hvort Víðir hafi verið kærður til yfirstjórnar lögreglunnar fyrir brot á siðareglum lögreglumanna. Kveða þær um að framganga lögreglumanna á opinberum vettvangi megi ekki verða til þess að almenningur dragi óhlutdrægni lögreglu í efa við vinnslu sakamála. Þætti mér þó eðlilegt að slík kæra yrði send til yfirstjórnar lögreglu.

Ekki eru þeir sem sakaðir eru um refsiverða háttsemi þeir einu sem teknir eru af lífi í opinberri umræðu. Nægir að tala ógætilega á samfélagsmiðlum um minnihlutahópa svo æra og orðspor manna skaðis, þeir reknir úr störfum og þeir smánaðir á opinberum vettvangi. Allir dansa með; atvinnulífið, stjórnsýslan, fræðasamfélagið, stjórnmálamenn og ekki síst fjölmiðlar. Allur þessi óskundi væri ekki mögulegur nema fyrir tilstilli fjölmiðla. Þeir bera mun meiri ábyrgð en óvæginn rétttrúnaður og einhverjir öfgahópar sem hreiðrað hafa um sig víðsvegar um samfélagið.

Ljóst má vera að fjölmiðlar hafa á undanförnum árum farið langt frá upphaflegu hlutverki sínu. Völd fjölmiðla eru mikil sem hafa nú í auknum mæli verið beint gegn berskjölduðum borgurum sem ekki hafa verið kærðir, ákærðir né dæmdir fyrir nokkurn hlut. Illmælgin virðist duga.

Strangar reglur gilda um möguleika ríkisvaldsins til að refsa eða takmarka frelsi borgaranna. Fáar ef nokkrar reglur vernda hins vegar berskjaldaða borgara fyrir misbeitingu fjórða valdsins, nema vera skyldi æruverndin sem að mörgu leyti virðist pappírsgagn eitt þegar litið er til dómaframkvæmdar.

Í ljósi þess hversu borgararnir eru berkjaldaðir fyrir misbeitingu fjórða valdsins hlýtur að teljast bersýnileg nauðsyn að löggjafinn setji fjölmiðlum mörk með lögum og veiti borgurum réttarvernd fyrir opinberum fréttafluttningi til samræmis við mannréttindaákvæði stjórnarskrár og þá alþjóðlega mannréttindasamninga sem Ísland er aðilji að, sem kveða m.a. á um að sérhver maður skuli teljast saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð. Því vald leiðir oft til spillingar og algert vald leiðir til algerrar spillingar.

Höfundur hefur BA í guðfræði og MPA í stjórnsýslufræði.