Kennd eru píslarvottafræði, jíhad og gyðingahatur á vegum UNRWA – er kominn tími á að leggja stofnunina niður?

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir1 Comment

Það er óróasamt á Vesturbakkanum nú um stundir, eins og oft áður. Ísraelski herinn tekur meinta hryðjuverkamenn úr umferð og Palestínumenn ráðast á móti á almenna borgara í Ísrael og fagna ef vel tekst til með drápin.

Muhammad Aliwat, 13 ára, er einn árásarmannanna en hann sat fyrir feðgum í Jerúsalem og særði þá alvarlega (hann var handtekinn). Forstöðumaður IMPACT-se, Marcus Sheff, skrifaði grein af því tilefni og benti á að kennsluefnið í skólum palestínsku heimastjórnarinnar gengi mikið út á kennslu í píslarvottafræðum, jíhadi og gyðingahatri. Lesskilningur Aliwat muni hafa verið prófaður með sögu um sjálfsmorðsárásir, þar sem Palestínumenn „skera óvinahermenn á háls“ og segir Sheff að í einni kennslubókinni sé heill kafli um að píslarvætti sé „skylda“ og að það færi mönnum heiður, frægð og inngöngu í Paradís. Gyðingum er lýst með ófögrum orðum og sagðir ógna helgi íslam. Skýrslur IMPACT-se hafa komið út í um hálfan áratug en hatursinnrætingin breytist lítið þótt þeir er fjármagna kennsluna fái skýrslur um hana.

Börnunum kennd tóm tjara

Palestínskum börnum er kennt að Ísraelsmenn hafi engan samningsvilja en það eru leiðtogar þeirra sjálfra sem hafa hafnað hverju tækifærinu á fætur öðru til að fá sjálfstætt ríki. Þeim var t.d. boðið að vera með þegar friðarsamningarnir við Egypta voru gerðir. Árið 2000 hafnaði Arafat tillögum Bill Clintons og árið 2008 var það Abbas sem hafnaði nær fullfrágengnum samningum. Aðalsamningamaður PLO, Saeb Erekat, sagðist 2019 hafa lagt hart að honum að samþykkja þá. Börnunum er einnig kennt að þetta sé þeirra land, og þeirra eingöngu, en Mark Twain lýsir Landinu helga sem auðn í bók sem kom út 1869 en hann kom þar við á heimsreisu og sá aðeins staka Bedúínahópar og fólk af ýmsum trúarhópum (þar á meðal gyðinga) og uppruna í Jerúsalem, um 14.000 alls.

Douglas Murrey hneykslaður

Kennslan er á ábyrgð UNRWA en fjármögnuð af mörgum þjóðum, meðal annars af okkur. Skýrslur IMPACT-se hafa verið kynntar ESB og 2018 skrifaði Douglas Murray grein í Gatestone þar sem hann segir það hneyksli að á meðan Bretar svelti eigin skóla þá hafi þeir sent 20 milljónir punda til að palestínsk börn læri að það að beita ofbeldi sé fullkomlega réttlætanlegt. Friðelskandi ríkisstjórn myndi hætta fjármögnun hvaða stofnunar sem væri - hvar sem í heiminum hún væri - sem hefði kennslu ofbeldis sem grunnþátt í námsefni sínu.

Styrktaraðilar og upphæðir breytilegar eftir árum

En auðvitað eru breskar ríkisstjórnir ekki friðelskandi og Bretar greiða enn til UNRWA, þó minna en áður að því er virðist. BNA og ESB voru langstærstu styrktaraðilarnir 2022 en bræðralönd Palestínumanna sýna þessu máli nær engan áhuga. Sádar hættu að styrkja UNRWA eftir að Palestínumenn höfnuðu fjárhagsaðstoð þeirra og annarra arabaþjóða 2020, en þeir vildu byggja upp iðnað og verknámsskóla fyrir Palestínumenn. Aðeins 14 þeirra mættu á ráðstefnuna í Bahrain í algjörri óþökk palestínskra stjórnvalda. Þar á meðal var Ashraf Jabari viðskiptafrömuður frá Hebron og skv. Gatestone var ætt hans neydd til að afneita honum. Svíar, sem hafa verið einna gjafmildastir, hyggjast draga úr framlögum sínum um 40- 60%. Nýja ríkisstjórnin vill setja Úkraínumenn í forgang. Framlög Bandaríkjamanna geta tæpast talið örugg. Trump sló þau af í forsetatíð sinni og sett voru lög, Taylor Force lögin, sem bönnuðu að styrkja hópa sem verðlaunuðu dráp á Bandaríkjamönnum. Trúlega eru þau enn í gildi.

Á UNRWA framtíð?

Í sumar sem leið mátti heyra bollaleggingar um að fjármögnun UNRWA stæði á brauðfótum, enda eru skjólstæðingarnir nú um 5.6 milljónir. Stofnun þessi var sett á stofn 1949 til að hjálpa þeim Palestínumönnum er flæmdust burt af svæðinu eftir að herir nágrannalandanna réðust gegn hinu nýstofnaða Ísraelsríki. Sú hjálp hefur þó reynst mjög takmörkuð því enn er þetta fólk í flóttamannabúðum, annars flokks þegnar meðal annarra araba og án þjóðríkis í Palestínu. Hvert fóru peningarnir, spyrja menn. Ekki til að gera þetta fólk sjálfbjarga, að minnsta kosti. Samningur um fjármögnun UNRWA rennur út 30. júní 2023 og trúlega eru það fleiri en Svíar sem vilja fremur láta Úkraínumenn njóta takmarkaðs fjármagns. Því er mögulegt að hin gagnslitla og spillta stofnun sem hefur tryggt sér fjármagn gegnum árin með því að hjálpa ekki skjólstæðingunum verði lögð niður og færð undir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR). Kannski yrði það til bóta.

One Comment on “Kennd eru píslarvottafræði, jíhad og gyðingahatur á vegum UNRWA – er kominn tími á að leggja stofnunina niður?”

  1. Já þeir hafa það svo gott Í Palestínu.

Skildu eftir skilaboð