Ritstjórnarlegt sjálfstæði RÚV?

frettinPistlar2 Comments

Skúli Sveinsson skrifaði pistilinn á facebook síðu sinni og heimilaði endurbirtingu:

Orðið ritskoðun heyrist nú reglulega í tengslum við umfjöllun eða umfjöllunarleysi fjölmiðla og þá ekki síst þegar kemur að ríkisfjölmiðlum hinna vestrænu lýðræðisríkja. Fullyrðingar um ritskoðun hafa einnig heyrst varðandi samfélagsmiðla og þá um að „óæskilegu“ efni sé eytt og reikningum lokað ef „óæskilegar“ skoðanir eða efni er birt.

En getur eitthvað verið til í því að um kerfisbundna ritskoðun eða miðstýringu fréttaflutnings sé að ræða í hinum vestræna heimi og þá líka á Íslandi? Getur verið að RÚV þurfi að fylgja ritstjórnarstefnu sem ákveðinn er á fundum í útlöndum? Svarið er því miður stórt JÁ!!! Og þetta samstarf nær ekki bara til RÚV heldur til allra stærstu fréttamiðla heims auk samfélagsmiðla.

Samstarfsvettvangur þessarar miðlægu, kerfisbundnu rauntíma-ritskoðunar heitir The Trusted News Initiative (TNI) og var stofnað til þessa félagskapar árið 2019, m.a. af ríkisfjölmiðlinum BBC.

Á vef BBC segir varðandi þetta samstarf:

"The BBC's Trusted News Initiative is a partnership that includes organisations such as Facebook, Twitter, Reuters and The Washington Post. It is the only forum in the world of its kind designed to take on disinformation in real time."

Yfirlýstur tilgangur og markmið þessa samstarfs eru fögur, þ.e.a.s. að koma í veg fyrir að rangar og villandi upplýsingar berist til eyrna viðkvæms og auðblekkjanlegs almenningsins, því annars gæti illa farið. Jafnframt er tilgangurinn sá að þeir fjölmiðlar sem eru hluti af þessu samstarfi sé trúað og treyst sem boðberum hins eina rétta sannleika, sem felur m.a. í sér að þeir verði að tala allir einu máli og á sama tíma, til að miðlarnir haldi trúverðugleika sínum.

Upphaflega tók samstarfið til þess að koma í veg fyrir að rangar og villandi upplýsingar bærust til eyrna almennings í tengslum við kosningar. Ætla mætti að réttlætanlegt sé að koma í veg fyrir að rangar upplýsingar berist til eyrna almennings í aðdraganda kosninga því það gæti augljóslega leitt til þess að „rangir“ aðilar séu kosnir til valda. Ritskoðunarsamstarfið fékk þó nýjan og aukinn tilgang þegar heimsfaraldri var lýst yfir árið 2020. Þá varð til nýr sannleikur sem þurfti að boða til almennings og ekkert mátti birta eða fjalla um, sem gæti með nokkrum hætti hróflað við trú almennings á þeim sannleika.

RÚV er aðili að þessu samstarfi í gegnum The European Broadcasting Union (EBU), þ.e.a.s. Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, sem heldur m.a. Eurovision söngvakeppnina. Tilvitnun í fréttatilkynningu The European Broadcasting Union (EBU), dags. 10.12.2020: 
"The Trusted News Initiative (TNI) has agreed to focus on combatting the spread of harmful vaccine disinformation, following its recent summit, chaired by BBC Director-General, Tim Davie. ,,The TNI is already working together to tackle to spread of harmful coronavirus disinformation and previously has had success running a rapid alert system during the UK 2019 General Election, Myanmar and Taiwan 2020 General Elections and the US Presidential Election."

Sú áleitna spurning sem þó vaknar er þá hverjum sé í raun falið að ákveða hvað sé rétt og hvað sé rangt, þ.e.a.s. hver „sannleikurinn“ er á hverjum tíma. Í þessu samstarfi er í raun einhverjum óskilgreindum einstaklingum, sem ekki er upplýst um hverjir eru, falið að ákveða hver „sannleikurinn“ er og á grundvelli ákvarðana þeirra er öllu kerfinu ætlað að fylgja þeim „sannleika“ í fréttaflutningi sínum og annarri umfjöllun. Engum sjónarmiðum sem stangast á við þennan „sannleika“ er heimilt að birtast á miðlunum, því það er augljóslega einungis til þess fallið að grafa undan trúverðugleika þess „sannleika“ sem boðaður er og þeirra miðla sem standa að boðun hans.

Í áðurnefndri fréttatilkynningu The European Broadcasting Union (EBU), frá 10.12.2020, segir:

"Examples include widely shared memes which link falsehoods about vaccines to freedom and individual liberties." Í fréttatilkynningunni er ofangreint dæmi tekið af „röngum upplýsingum“ sem ber þá að koma í veg fyrir að geti birst í fjölmiðlum, þ.e.a.s. að verið sé að tengja saman bólusetningar annars vegar og frelsi og borgaraleg réttindi hins vegar. Ekki liðu þó margir mánuðir þangað til að þessi meintu rangindi reyndust þó í raun sannindi, þegar innleiðing bólusetningarpassa hófust, sem höfðu þau áhrif að frelsi og borgaraleg réttindi þeirra óbólusettu (og einnig þeirra bólusettu) voru skert með ýmsum hætti. Þessi meintu rangindi reyndust því í raun ekki vera röng aðeins örfáum mánuðum síðar. Sannleikurinn er bæði afstæður og breytilegur en ég læt öðrum eftir heimspekilegar vangaveltur þar um.

Inntak sannleiksboðunar samstafsins varðandi bólusetningar kemur svo fram í tilvitnun í Noel Curran, Director General, EBU. Hann segir að ekkert megi raska trú og trausti almennings á bólusetningum og ekkert megi birta eða fjalla um sem geti með nokkrum hætti haft neikvæð áhrif á ákvörðun fólks að láta bólusetja sig. Þannig að þessum ríkismiðlum er því bannað að fjalla t.d. um líkamstjón sem hlotist hefur af bólusetningum, hvort virkni bóluefna sé í raun eins og lagt var upp með eða hvort markmið þeirra um stöðvun útbreiðslu smita séu að ganga eftir. Einnig fellur undir þetta að ekki skuli fjalla um skoðanir, þar með talið sérfræðinga, sem stangast geti á við yfirlýstan „sannleika, eða þá fjöldamótmæli almennings. Öll slík umfjöllun er augljóslega til þess fallin að draga úr trú almennings á bóluefnum. Jafnframt er yfirlýst markmið að hvetja fólk til að þiggja bólusetningar með ýmsum hætti, svo sem með því að kynda undir ótta og halda því fram að eðlilegt sé að takmarka borgaraleg réttindi við bólusetningar. RÚV virðist fylgja þessum tilskipunum samtakanna eftir til hins ýtrasta þar sem engin gagnrýnin umfjöllun hefur enn birst á RÚV varðandi þetta mál, ólíkt flestum öðrum miðlum landsins, auk þess sem umfjöllun RÚV hefur fyrst og fremst verið til þess fallin að kynda undir ótta almennings. Ekkert er betur til þess fallið að hvetja fólk til aðgerða og undirgefni heldur en óttinn.

Þetta samstarf stærstu fjölmiðla heims er m.a. unnið á grundvelli The European Broadcasting Union (EBU) og sérstaklega ætlað að samræma fréttaflutning og skilaboð evrópsku ríkisfjölmiðlana þannig að einungis eitt skýrt samræmt sjónarmið komi þar fram.

Í 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, segir:
„Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda.“

Strax er erfitt að sjá hvernig sá tilgangur og markmið samstarfsins að einungis skuli vera um einn „sannleika“ að ræða og þá að vinna skuli markvisst gegn öllu sem stangast á við þann „sannleika“ geti með nokkru móti samræmst 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Greinin kveður á um tjáningarfrelsi og var m.a. ætlað að tryggja frjáls skoðanaskipti, þá á grundvelli þess að tjáningarfrelsið ásamt sjálfstæði og frelsi fjölmiðla sé undirstaða þess að lýðræðislegt þjóðfélag fái þrifist. Ef boða á einn heilagan sannleika og annað sé í raun trúvilla, má ljóst vera að það samræmist einfaldlega ekki grundvallarsjónarmiðum um tjáningarfrelsi.
En hver er þá lagaleg staða RÚV þegar kemur að þessu sannleiksboðunar og ritskoðunarsamstarfi?

Um RÚV gilda bæði sérlög, þ.e.a.s. lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, og almenn lög, sem eru lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.

Í 3. gr. laga um Ríkisútvarpið er kveðið á um hlutverk og skyldur RÚV en þar segir í 2. mgr.:
Ríkisútvarpið skal sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að:
1. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, þ.m.t. um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.
2. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.
3. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.
Í lög um fjölmiðla eru svo ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði og frekari reglur um lýðræðisleg grunngildi:
24. gr. Ritstjórnarlegt sjálfstæði.
Fjölmiðlaveita skal setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Slíkar reglur skulu mótaðar í samráði við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra eða samtök.
26. gr. Lýðræðislegar grundvallarreglur.
Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi.

Af framangreindum reglum má sjá að RÚV ber lagaleg skylda til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði sitt og hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur um mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Auk þess sem RÚV á að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og varða almenning.

Öllum má vera ljóst að þátttaka RÚV í samstafi stærstu fjölmiðla heims um hinn eina og rétta sannleika, þ.e.a.s. The Trusted News Initiative, er í engu samræmi við framangreind ákvæði hvorki fjölmiðlalaga né sérlaga um Ríkisútvarpið. Með þátttöku RÚV í þessu samstarfi hefur stofnunin einfaldlega afsalað sér ritstjórnarlegu sjálfstæði sínu til óþekktra erlendra einstaklinga sem falið hefur verið að skilgreina fyrir okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt, jafnframt er RÚV undirsett til að fylgja og boða þann „sannleika“ sem frá þeim kemur. Samstarfið gengur jafnframt út á að vinna gegn meintum ósannindum og þá einnig þeim einstaklingum sem slík ósannindi boða, allt í þeim tilgangi að traust og trú almennings á þeim „sannleika“ sem boðaður er sé með engu móti raskað.

RÚV er því ekki lengur sjálfstæður vettvangur samfélagsumræðu þar sem ólíkar skoðanir eiga að fá að njóta sín og lýðræðisleg sjónarmið eru höfð að leiðarljósi heldur er þessi áður sjálfstæði fréttamiðill þjóðarinnar undirsettur einhliða ritstjórnarstefnu sem ákveðin er á vettvangi miðlægs samráðs stærstu fréttamiðla heims. Augljóst verður að telja að RÚV getur ekki tekið áframhaldandi þátt í þessu samstarfi ef starfsemin á að vera í samræmi við gildandi lög og reglur.


2 Comments on “Ritstjórnarlegt sjálfstæði RÚV?”

  1. Flott og afskaplega fróðlegt efni, takk fyrir. Guðrún Bergmann er eflaust ,, fórnarlamb “ ráðandi fjölmiðla afla, þessi grein gefur okkur sem vilja sjálfstæða fjölmiðla byr undir baða vængi að berjast gegn ritskoðunar og réttrúnaðar stefnu eldklerka elítu risanna Innan fjölmiðlaveldisins á heimsvísu .

Skildu eftir skilaboð