,,Nesjamennska og útnáraháttur“ – Jón svarar skrifum ritstjóra Fréttablaðsins

ThordisPistlarLeave a Comment

Jón Magnússon lögmaður skrifar:

Ritstjóri Fréttablaðsins kemst að þeirri niðurstöðu í leiðara í dag, að nesjamennska og útnáraháttur Íslendinga valdi því, að við erum ekki í Evrópusambandinu (ES).

Svo virðist, sem ritstjórinn hafi staðnað í sögulegum viðhorfum til alþjóðamála á fyrri öldum Íslandssögunnar. Vart verður þjóð, með hlutfallslega ein mestu alþjóðlegu viðskipti, með fjölþjóðlegt öflugt listalíf og þúsundir útlendinga vinnandi að arðsköpun í landinu sökuð um nesjamennsku og útnárahátt.

Raunar skiptir engu máli hvað íslenska þjóðin gerir af því að nauðhyggja ritstjórans og sálufélaga hans, leiðir alltaf til þeirrar niðurstöðu, að einungis sé um tvo kosti að velja. Að vera frjáls og fullvalda þjóð eða fórna fullveldinu og vera áfram hjáleiga utan ES eins og hann orðar það. Ritstjórinn vill fórna fullveldinu.

Því miður hafa menn eins og ritstjórinn og útgáfuaðilar Fréttablaðsins staðnað í tilverunni varðandi viðhorf til ES og neita að horfast í augu við þá óbærilegu yfirstjórn í Brussel sem hefur tekið sér síaukin völd og krefst þess nú, að lögin þeirra gildi umfram landslög í aðildarríkjunum.

Hvernig stendur á því að þeir sem hafa gert Evrópuguðinn ES að leiðtoga lífs síns neita að horfast í augu við þann raunveruleika, að með því að ganga í ES mundum við fórna auðlindum þjóðarinnar eins og fossaflinu og jarðvarmanum sem og aðgang að fiskimiðunum.

Af hverju neita þeir að horfast í augu við að smáþjóðin Ísland verður þá fyrst hjáleiga með því að fórna fullveldi sínu og ganga í ES. Ritstjórinn hefði betur litið í orðabók áður en hann valdi orðið hjáleiga.

Hjáleiga verður Ísland nefnilega þá fyrst færi svo illa að landið gengi í ES og fórnaði fullveldinu.

Skildu eftir skilaboð