Notaði CBD olíu gegn Parkinson sjúkdómnum

frettinPistlarLeave a Comment

Garðar Örn Hinriksson ferðaleiðsögumaður, tónlistarmaður og rithöfundur var greindur með Parkinson árið 2017. Hann fékk strax lyf og prófaði ýmsar meðferðir sem hjálpuðu ekki. Hann nefnir það upprisu eftir að hann hóf að taka inn CBD olíu og gat loksins rétt úr sér.
Hann var spurður hvernig Parkinson sjúkdómurinn lýsti sér í byrjun?

Nú fær Garðar Örn orðið:
Í upphafi varð ég fyrst var við sjúkdóminn haustið 2016 þá byrjaði örfínn skjálfti í vinstri hönd. Fyrst um sinn spáði ég ekkert sérstaklega í það en þegar skjálftinn hélt áfram fór mig að gruna að ég væri með Parkinson-sjúkdóminn.

Af hverju grunaði þig það? 
Einfaldlega vegna þess að faðir minn var með þennan sjúkdóm en hann greindist örfáum árum áður. Næsta skref var því að heimsækja heimilislækni sem sendi mig áfram til taugalæknis. Taugalæknirinn grunaði slíkt hið sama eftir að hafa fengið að vita að ég væri ekki sá eini í fjölskyldunni með þennan sjúkdóm.

Fyrst um sinn varð ég ekkert var við nema þennan örfína skjálfta af og til í vinstri hönd. Ég var nýorðinn 45 ára þegar sjúkdómsgreiningin var staðfest í febrúar árið 2017. Í júní sama ár fór ég að haltra og þannig hef ég verið meira og minna síðan, gekk samt ágætlega. Ég stundaði mína vinnu sem ferðaleiðsögumaður af krafti og allt var svona nánast eins og það átti að vera. En þegar árið 2018 rann upp byrjaði fór ég að stífna meira í vinstri hliðinni, þar sem sjúkdómurinn heldur sig. Ég fékk verki sömu megin, bæði í hönd og fót. Reyndar hafa verkirnir stundum skotist í hægri hliðina, aðallega rass og fót, en þar er þó enginn skjálfti eða stífleiki enn sem komið er.

Bakverkirnir tóku að aukast, en ég hef alltaf verið bakveikur. Það varð til þess meðal annars að ég varð sífellt meira álútur. Líkaminn bognaði alltaf meira og meira niður og fram á við. Í restina var ég farinn að ganga eins og maður á tíræðisaldri, bæði vegna baksins og stífleikans. Eins var ég farinn að finna fyrir máttleysi í fótum sem kom af og til og ekki hjálpaði mér. Það varð til þess að ég varð að hætta að vinna um það leyti sem Covid skall á heiminn. Síðan þá er ég búinn að vera 100% öryrki. Þegar ég lít til baka finnst mér alveg magnað að ég skuli hafa haldið út árið 2018 og 2019 vinnulega séð. Kannski vegna þess að ég elskaði starf mitt. Það var því sárt þegar ég þurfti að hætta að vinna.

Hvaða meðferðir þú fórst þú í ?
Ég er búinn að vera á lyfjum frá því ég greindist með Parkinson. Eins hef ég farið í meðferð hjá sjúkraþjálfurum, kíróprakterum og hjá naprapata en ekkert af þessu skilaði þeim árangri sem ég vonast eftir og því hef ég sagt skilið við þessar starfsstéttir. Undanfarna mánuði hef ég verið í sjúkranuddi af og til. Það læknar mig ekki en líkamanum líður mun betur eftir þá meðferð heldur en hinar sem ég fór í áður. Nuddið lifir kannski ekki lengi í líkamanum en fær mig til að líða mun betur í einhvern x-tíma. Það má svo ekki gleyma hreyfingunni sem er jafn mikilvæg og lyfin. Hún skiptir gríðarlega miklu máli og vinnur gegn sjúkdómnum til jafns við lyfin.

Stórkostlegur bati kom við inntöku CBD olíu

Ég var ekki bjartsýnn í nóvember á þessu ári (2021) og átti ekki von á miklum bata þegar ég hóf að taka inn CBD olíu dropa. Ég hafði áður prófað CBD dropa með engum árangri, samt ákvað ég að prófa þá aftur. Ég var orðinn þreyttur miklum bakverkjum og að ganga um álútur eins og maður á tíræðisaldri, með andlitið nánast í götunni, og allir glápandi á mann. Ég var í raun til í að prófa allt. En nú höfðu CBD droparnir betri áhrif og u.þ.b. eftir tvær vikur fann ég mun á mér. Bakverkirnir horfnir og ég var orðinn beinni í baki. Ekki nóg með það, því að ég var einnig farinn að geta gengið lengri vegalengdir. Áður náði ég kannski örfáum tugum af metrum en núna var ég farinn komast 200 til 300 metra áður en ég þurfti að hvílast.

Reyndar var ég staddur erlendis í meiri hita sem hafði greinileg áhrif. Svo kom ég heim til Íslands og þá datt ég aðeins til baka en er allur að koma til aftur. Konan mín segist vera kominn með nýjan mann eftir að ég hóf að taka inn dropana og þannig líður mér líka sjálfum. Eins virðast droparnir hafa haft þau áhrif að ég er minna þreyttur en ég var. Mér finnst skjálftinn hafa minnkað töluvert en ætla að láta lengri tíma líða áður en ég þakka CBD dropunum það. Þeir hafa ekki náð að taka aðra verki í burtu, en ég er þakklátur fyrir það sem CBD olían hefur gefið mér til þessa. Ég þarf enn að styðjast við hækju, en á mun auðveldara með að skrifa sem betur fer því ég skrifa mikið. Meðal annars gaf ég út bók í haust sem heitir; Rauði Baróninn – Saga umdeildasta knattspyrnudómara Íslandssögunnar og einnig er ég á fullu við að skrifa annað. Vonandi get ég það sem lengst.

Garðar Örn með yngstu dóttur sína Rakel Maríu

Hvað tekur þú mikið inn daglega af CBD olíu?
Ég tek núna 3 dropa í senn tvisvar sinnum á sólarhring en ætti að taka 3 dropa þrisvar sinnum á sólarhring. Hægt er að hafa samband við Garðar Örn í gegnum netfangið: [email protected]

Á síðustu misserum hefur mikið verið talað um CBD á Ísladi en litlar upplýsingar gefnar um uppruna og eiginleika. Heilsuhringurinn leitaði því nánari skýringa hjá Ingvari Sigurðssyni sem ræktað hefur hamp síðastlin tvö sumur og kynnt sér eiginleika og notagildi hamps sem CBD olía er unnin úr.

CBD er unnið úr iðnaðarhampi sem er skyldur kannabisplöntunni. Hampurinn inniheldur engin vímuvaldandi efni og er ekki ávanabindandi. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að CBD er ekki lyf og ætti því frekar að líta á það sem fæðubótarefni. Í mannslíkamanum eru móttakarar sem taka við efninu og það er talið geta hjálpað til við að draga úr einkennum ýmissa sjúkdóma. Oft hefur fólk getað minnkað notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum þegar það hefur tekið CBD reglulega.

CBD kemur í mörgum útgáfum, þar á meðal eru olíur, seyði, hylki, plástrar eða sem smyrsl og olíur til að nota á húð. Hraðvirkasta aðferðin er að setja olíudropa undir tunguna sem gerir CBD kleift að fara beint inn í blóðrásina. Kannabínóðar (CBD) eru notaðir í lyfið Sativex sem er notað við vöðvakrömpum í tengslum við MS-sjúkdóm og við krabbameinsverkjum. Innan Bandaríkjanna er Epidiolex samþykkt fyrir ákveðnar tegundir flogaveik.

Fólk sem hefur notað CBD hefur lýst því hvernig það hefur getað aukið lífsgæði sín – minnkað langvarandi verki og ýmis taugavandamál, kvíða, svefnleysi, fækkað flogaköstum o.fl. Ef fólk ákveður að prófa CBD, skiptir miklu máli að fá það frá viðurkenndum framleiðendum og tali við lækni til að ganga úr skugga um að það hafi ekki áhrif á önnur lyf sem tekin eru.

Aukaverkanir CBD geta verið ógleði, þreyta og pirringur. CBD getur aukið magn blóðþynningar og annarra lyfja í blóði með því að keppa um lifrarensím sem brjóta niður þessi lyf. Þess vegna er fólki ráðlagt að byrja á litlum skömmtum og prófa sig síðan áfram þar til það hefur fundið rétt magn.

Ingibjörg Sigfúsdóttir tók saman í desember 2021. Greinin birtist fyrst á Heilsuhringurinn 1. janúar 2022.

Skildu eftir skilaboð