Frelsa oss frá sannleikanum

thordis@frettin.isPistlar, Þorsteinn SiglaugssonLeave a Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson:

Markmið Facebook er ekki að tryggja öryggi notenda sinna. Markmiðið er að láta þá halda að þeir séu öruggir, koma í veg fyrir að þeir komist að óþægilegum upplýsingum, koma í veg fyrir að þeir hugsi.

Í vikunni birti vinur minn stutta færslu á Facebook þar sem hann vakti athygli á því hvernig honum virtist fyrirtækið ekki einu sinni nenna lengur að vísa til hinna svokölluðu „óháðu staðreyndatékkara“ til að réttlæta ritskoðun sína. Hann hafði myndband þar sem Tucker Carlson þáttastjórnandi hjá sjónvarpsstöðinni Fox fjallaði um neikvæða virkni Covid-19 bóluefnanna og vísaði þar í ritrýndar rannsóknir. Myndbandið má horfa á hér.

Engin tilvísun í tvítugu háskólanemana hjá ritskoðunarveitunum, bara þessi merkimiði:

Hvernig í ósköpunum geta ritrýndar niðurstöður talist „rangupplýsingar“? Ritrýniferlið er ekki fullkomið, langt frá því, en þegar allt kemur til alls er það viðurkenndur gæðastaðall. Fyrsta niðurstaðan er því sú að orðið „rangupplýsingar“ vísar ekki lengur til rangra upplýsinga, heldur einfaldlega til allra upplýsinga sem ritskoðandinn vill bæla niður. Orðið „rangupplýsingar“ er orðið merkingarlaust.

Athöfnin sjálf felst í því að hindra að vissar upplýsingar komi fram, en hvað með ástæðuna? Hin uppgefna ástæða fyrir því að bæla niður óþægilegar upplýsingar um Covid-19 bóluefni er sú að það eitt að sjá þessar upplýsingar gæti „gæti látið fólk finna til óöryggis“. Hvað þýðir þetta nákvæmlega?

Möguleikarnir eru a.m.k. tveir og hér er ég aðeins að tala um þá sem trúa opinberu frásögninni. Annars vegar gæti fólk fyllst óöryggi þegar það sér sönnunargögn sem stangast á við það sem stjórnvöld, fjölmiðlar og samfélagsmiðlar halda að því; slagorðið „örugg og áhrifarík“. Það að horfa á skýringar Tucker Carlson á sönnunargögnunum um hið gagnstæða gæti valdið því að fólk upplifi sig óöruggt, óvisst, efins í garð áróðursins sem miskunnarlaust er ýtt að því; þetta er það sem gerist þegar fólk uppgötvar að það hafi verið blekkt af einhverjum sem það treystir. Óöryggistilfinningin hellist yfir mann vegna þess að maður veit ekki lengur hverjum skal treysta.

Hins vegar gæti fólk fundið fyrir óöryggi vegna þess að heimsmynd þess er ógnað, á meðan það reynir að halda fast í hana af öllum mætti. Það trúir enn lygunum; það hefur engar efasemdir, en að uppgötva það hvernig aðrir deila ekki sýn þess á heiminn getur valdið hræðslu. Kannski hefur það tekið þátt í að útskúfa öðrum, hæðast að þeim, óskað þeim ills, og óttast um eigin örlög ef sannleikurinn kemur í ljós. Kannski grunar það innst inni að verið sé að blekkja það, en óttast að viðurkenna það.

Fólkið gæti jafnvel hafa verið svo rækilega heilaþvegið að það trúir því nú í raun og veru að ungt og heilbrigt fólk, sem stafar ekki meiri hætta af Covid en flensu, muni detta niður dautt eins og flugur, smitist það af pestinni, eins og þessi dapurlega unga kona, Georgia Clark, sem var tilbúin til að leggja líf sitt í hættu til að vernda trú sína á rangar ráðleggingar.

Tökum eftir orðalaginu í merkimiða Facebook. Þar segir ekki að hinar meintu „rangupplýsingar“ dragi úr öryggi fólks, heldur að þær gætu látið það finna fyrir óöryggi. Þegar sýn manns á heiminn er ógnað gæti maður vissulega fundið fyrir óöryggistilfinningu, en það þýðir ekki að maður sért eitthvað minna öruggur en áður. Ef einhver bendir manni á að brúin sem maður fer yfir á hverjum degi og hefur verið fullvissaður um sé vel byggð og sterk, sé í raun kolryðguð og gæti hrunið hvenær sem er, gæti maður fundið fyrir óöryggi; maður myndi efast um annað sem þeir sem fullvissuðu mann um öryggi brúarinnar hefðu sagt manni. En með því að forðast brúna framvegis yki maður eigið öryggi til frambúðar. Ef maður kemst að því að lyf sem maður hefur verið sannfærður um að sé öruggt og áhrifaríkt sé það í raun ekki, gæti maður fundið til óöryggis með sama hætti. En að forðast þessi lyf myndi samt örugglega gera mann öruggari í framtíðinni.

Að þurfa að hugsa gæti valdið manni óöryggistilfinningu, en það dregur ekki úr öryggi manns. Sönn skoðun er grundvölluð á hugsun, á yfirvegun; til að komast að sannleikanum verðum við að hafa allar viðeigandi upplýsingar sem við getum komist yfir, meta þær og á endanum komast að upplýstri niðurstöðu. Hún varir ekki endilega að eilífu, ný sönnunargögn gætu komið fram, maður gæti þurft að endurskoða niðurstöðuna. En þetta er kjarni vísindanna, forsenda allra framfara, og líka forsenda þess að taka bestu og öruggustu ákvarðanirnar fyrir okkur sjálf.

Markmið Facebook er ekki að gera notendur sína örugga. Markmið þeirra er að láta þá halda að þeir séu öruggir, koma í veg fyrir að þeir uppgötvi óþægilegar upplýsingar, koma í veg fyrir að þeir hugsi. Þeir eru postular nýs guðs og fylgjendur hans biðja hann ekki um að frelsa sig frá hinu illa, þeir biðja hann að frelsa sig frá sannleikanum.

Greinin birtist fyrst á miðlinum Substack 13. nóv. 2022

Skildu eftir skilaboð