Himinhá verðbólga gerir Erdogan sáttfúsan – Hamas þarf burt

frettinErlentLeave a Comment

Verðbólga er ekki alslæm. Götumótmæli vegna 60% verðbólgu í Tyrklandi virðast hafa breytt Erdogan í friðarsinna. Hann fór til Sameinuðu arabísku furstadæmanna í mars og hinn 28. apríl hitti hann bæði Mohammed bin Salman og Salman konung í Sádi Arabíu. Hann vill að Arabaríkin fjárfesti í Tyrklandi og fari aftur að kaupa af þeim vörur en samskiptin hafa verið takmörkuð í meira en áratug, eða frá því að Tyrkland studdi Bræðralag múslima til áhrifa á tíma Arabíska vorsins svokallaða.

Eftir að Sádar skáru upp herör gegn Bræðralaginu 2017 og Tyrkir studdu Katara gegn þeim þá minnkaði innflutningur frá Tyrklandi og fór niður í sama og ekki neitt eftir að Khashoggi (sem skrifaði áróðursgreinar fyrir Bræðralagið í Washington Post) var drepinn í sendiráði Sáda í Istanbúl 2018. Fyrr í apríl söltuðu Tyrkir réttarhöld yfir 26 meintum morðingjum hans, samkvæmt Aljazeera. Nú er ekki tíminn til að ergja Sáda.

Erdogan vinnur einnig að því að bæta samskiptin við Ísrael, sem stórversnuðu eftir að Tyrkir ákváðu að rjúfa hafnbann á Gaza 2010 og níu Tyrkir voru drepnir um borð í skipinu Mavi Marmara eftir að hafa ráðist á ísraelsku strandgæsluna er hún kom um borð til að færa skipið til hafnar.

Forseti Ísraels, Isaac Herzog, kom í heimsókn til Tyrklands í mars í ár, en svo háttsettur Ísraeli hafði ekki komið í opinbera heimsókn frá því að Ehud Olmert kynnti friðarsamninga sína 2008. Í unitedwithisrael.org má lesa að Ísraelsmenn hafi afhent Tyrkjum lista yfir Hamas-liða sem nýttu sér aðstöðuna þar til að skipuleggja hryðjuverk gegn Ísrael og nú þurfi þeir að finna sér annan stað. Leiðtogar Hamas hafa verið á hrakhólum undanfarin ár. Þeir komust upp á kant við Assad með stuðningi sínum við ISIS og við marga aðra með því að vera hluti af Bræðralaginu. Í greininni segir að reiknað sé með að Hamas flytji skrifstofur sínar til annað hvort Beirut eða Teheran.

En af hverju vill Erdogan vingast við Ísraelsmenn? Jú, þeir eiga jarðgaslindir og vilja koma gasinu á markað í Evrópu. Þeir senda nú þegar gas til Egypta og planið er að sameina gaslindir Ísraelsmanna og Kýpurbúa. Hentugast væri að tengjast Tyrklandi svo gasið færi þaðan á markað með leiðslum; fjarlægðin til Grikklands er einfaldlega of mikil til að það sé hagstætt að tengja gasleiðsluna þangað.

Vilji Evrópulanda til að vera ekki lengur háð Rússagasinu ýtir eflaust undir þessar hugmyndir og Ísraelsmenn hafa tekið að sér að vera tengiliður Grikkja, Kýpverja og Tyrkja. Það að Tyrkir drógu sig nýverið út úr æfingum NATO í Grikklandi gæti bent til að þeir vilji síður ógna Grikkjum, eins og þeir hafa lengi gert.

Skildu eftir skilaboð