Óöld yfirvofandi í heiminum vegna Úkraínustríðsins?

frettinIngibjörg Gísladóttir, Pistlar1 Comment

Stríðið í Úkraínu er strax farið að auka á óstöðugleika í heiminum. Framundan er hærra matarverð, hærra orkuverð og þrengri fjárhagsstaða almennings og ríkja. Einnig virðist einhvers konar uppstokkun heimsmálanna vera framundan. Larry Fink, forstjóri Blackrock stærsta fjárfestingafélags heims sendi hluthöfum bréf þann 24. mars þar sem stóð að endalok glóbalismans væru fyrirsjáanleg. Innrás Rússa í Úkraínu hefði bundið enda á þriggja áratuga stjórnun heimsmálanna og myndi hafa varanlegar efnahagsafleiðingar um allan heim.

Fyrsti dómínókubburinn

Hinn 9. maí mátti lesa í Guardian að Sri Lanka væri fyrst til að falla. Þar fór forsætisráðherrann, Mahinda Rajapaksa, frá eftir öflug mótmæli. Í skýrslu þróunar- og viðskiptadeilda SÞ segir að 69 lönd standi frammi fyrir þríþættum vanda hækkandi vöruverðs, hækkandi orkuverðs og efnahagsþrenginga, 25 í Afríku, 25 í Asíu og 19 í S-Ameríku og Kyrrahafinu. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (IMF) hefur hafið björgunarviðræður við Egyptaland og Túnis - sem bæði flytja inn mikið af hveiti frá Rússlandi og Úkraínu og við Pakistan sem hefur fyrirskipað skerðingar rafmagns vegna þess hve innflutt orka er dýr. Nýlega skrifaði Argentína undir 45 milljarða USD skuldasamning við IMF. Lengi var þess vænst að Tyrkland, yrði fyrsti dóminókubburinn til að falla, en þrátt fyrir 70% verðbólgu og óhefðbundna stjórnun efnahagsins þá heldur það sjó og getur fætt þegna sína. Samkvæmt Heimsbankanum voru nær 60% af tekjulægstu löndum heimsins í skuldavandræðum fyrir innrás Rússa og lánakostnaður eykst hratt, sérstaklega hjá skuldugum þjóðum, segir í Guardian.

Stríð Bandaríkjanna gegn Rússum

Bandaríkin ætla sér að vinna þetta stríð. Nýlega samþykkti fulltrúadeild þingsins stuðningspakka við stjórn Úkraínu. Þar af eru 20 milljarðar USD ætlaðir til hergagnakaupa. Einnig hafa bandarískir þingmenn samþykkt lög sem gera það auðveldara fyrir BNA að afhenda Úkraínu vopn og Biden hefur staðfest þau með undirskrift sinni. Lögin byggja á láns- og leigulögum frá 1941 sem Bandaríkin setti til að geta sent vopn til Bandamanna án þess að vera formlega þátttakandi í stríðinu. Þingmaður repúblikana í Texas lagði þau fram 19 janúar (meira en mánuði fyrir innrás Rússa) og þau voru samþykkt í fulltrúadeildinni 28. apríl með aðeins 10 mótatkvæðum repúblikana. Bandaríkin hafa einnig veitt Úkraínuher upplýsingar um staðsetningu herafla og fleira að verðmæti 3.8 milljarða og eru þær sagðar hafa nýst til að drepa hershöfðingja Rússa og sökkva flaggskipi þeirra, Moskvu.

Menn þurfa ekki nema að hlusta á John Kirby, upplýsingafulltrúa Pentagon til að sannfærast um að Úkraínustríðið er stríð Bandaríkjanna gegn Rússum. Hann viðurkennir hiklaust að Bandaríkin hafi þjálfað Úkraínuher í átta ár, ásamt öðrum viljugum þjóðum, og séð þeim fyrir vopnum. NATO er ekki varnarbandalag - við sáum það skýrt í Libýu - og ESB þarf óvin til að hugmyndir Úrsúlu von der Leyen um sameinaða Evrópu að fyrirmynd BNA eða Sovétríkjanna fái hljómgrunn.

„Sámur frændi“ sem lögregla heimsins?

Allt frá valdaráni Bandaríkjastjórnar í Úkraínu 2014 undir umsjón Victoriu Nuland hefur Putin kvartað undan vilja BNA til að ganga gegn anda Sameinuðu þjóðanna og koma á alheimsstjórn og Sergei Lavrov sagði hið sama nýverið samkvæmt Reuters. Haft er eftir honum: Það sem Ameríkanar vilja er einskauta (e. unipolar) heimur sem myndi ekki vera eins og alheimsþorp heldur eins og amerískt þorp - eða eins og krá þar sem hinn öflugasti ræður. Hann bætti við að mörg lönd, svo sem Kína, Indland og Brasilía vildu ekki láta Sám frænda ráðskast með sig eins lögreglustjóra í villta vestrinu. Við verðum nú að treysta eingöngu á okkur sjálf og bandamenn okkar,sagði hann. Það erum ekki við sem lokum dyrunum til Vesturlanda - það er verk þeirra.

Eftir upplausn Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins þá vonuðust margir til að óvildin væri fyrir bí og Rússland yrði jafnvel eitt Vesturlanda en stöðug útþensla NATO kom í veg fyrir það. Helsti kaldastríðsráðgjafi Bandaríkjanna, George F. Kennan, sagði í grein sinni "A Fateful Error, New York Times, 05 Feb 1997 að: ...útþensla NATO myndi vera örlagaríktasta skekkja bandarískrar stefnu að Kaldastríðinu loknu. Búast megi við að slík ákvörðun muni vera sem olía á eld þjóðernissinnaðar, and-vestrænnar og hernaðarsinnaðar tilhneigingar Rússa; að hún myndi hafa hamlandi áhrif á þróun lýðræðis í Rússlandi; endurvekja andrúmsloft Kalda stríðsins og þvinga utanríkisstefnu Rússa í áttir sem okkur muni örugglega ekki líka ... Var það ekki einmitt það sem gerðist?

Hvernig ætla Bandaríkin að vinna stríðið? Með því að sprengja Donbass í tætlur í þessu proxýstríði sem hafði kostað 14.000 mannslíf fyrir innrás Rússa og kannski Krímskagann líka? Viðskiptaþvinganirnar sem Obama byrjaði á strax eftir Maidan 2014 og hafa stöðugt þyngst virðast helst virka til að koma öllum heiminum í uppnám því hann er háður matvælum, eldsneyti og áburði frá Rússlandi og Úkraínu en það virðist ekki skipta máli á Vesturlöndum. Það þarf jú að verja lýðræðið í Úkraínu.

Þar má finna ólígarka, botnlausa spillingu m.a. með aðkomu Hunter Bidens; leiðtogi stjórnarandstöðunnar er í fangelsi og stjórnarandstöðuflokkarnir bannaðir; stríð gegn íbúum í austurhluta landsins hefur verið í gangi síðustu 8 árin; nazistar í hernum og í valdamiklum embættum og Stephan Bandera samverkamaður nazista í seinna stríðinu er dýrkaður. Forsetinn lofaði að sameina þjóðina og koma á friði ef hann yrði kosinn, en stríðið hélt áfram, hann samþykkti svo lög sem svipta Rússa í landinu rétti til að nota tungumál sitt í opinberum samskiptum, s.s. á elliheimilum, og safnar auði sem geymdur er á reikningum aflandsfélaga og á dýrar fasteignir í útlöndum. Lýðræði? Öllu má nafnið gefa.

Hverjir, ef einhverjir, stjórna annars Bandaríkjunum? Er það einhverjum þar í hag að heimurinn skiptist upp í blokkir og hungur, orkuskortur og óöld skapist víða eða er ástandið afleiðing af blindri græðgi stórfyrirtækjanna, s.s. hergagnaiðnaðarins, sem hafa tangarhald á stjórnmálamönnunum með lobbýisma sínum og framlögum í kosningasjóði þeirra?

One Comment on “Óöld yfirvofandi í heiminum vegna Úkraínustríðsins?”

  1. Ekki gleyma þessum 53 ræktunar og matarfyrirtækjum sem hafa brunnið til kaldra kola á seinustu 6 mánuðum og landbúnaðarráðherra bna handtekinn fyrir aðild að því 😉

Skildu eftir skilaboð