Íslenska ríkið hefur keypt Covid bóluefni fyrir 3,9 milljarða og gefið 750 milljónir til COVAX

frettinInnlendarLeave a Comment

Íslenska ríkið hefur keypt Covid bóluefni fyrir 3,9 milljarða kr. frá upphafi faraldurs samkvæmt svari frá heilbrigðisráðuneytinu.

Auk þess hefur ríkið greitt 750 milljónir kr. til Gavi Covax bandalagsins sem sér um að dreifa Covid bóluefnum til efnaminni þjóða.

Ráðuneytið var spurt hver hugmyndin á bak við kaup ríkisins á 1,4 milljónum skammta af Covid bóluefnum væri (fyrir 370 þúsund manna þjóð). Í dag hafa samkvæmt vefnum Covid.is verið gefnir rúmlega 836 þúsund skammtar hér á landi.

Í svari ráðuneytisins segir að Ísland eins og önnur Norðurlönd og mörg önnur Evrópuríki hafi ákveðið að kaupa yfirmagn bóluefna til að gefa til þeirra landa sem þurfa á því að halda. Var þetta gert í þeim tilgangi að styðja við bólusetningarmarkmið WHO sem er að bólusetja 70% af heimsbyggðinni með Covid sprautuefnum.

Gáfu AstraZeneca og Janssen til fátækra landa

Ísland gaf alla umframskammta sína af AstraZeneca, eða 125.726 skammta talsins, og 171.000 skammta af Janssen, til COVAX sagði ráðuneytið. Fílabeinsströndin fékk t.d. 35,700 skammta af AstraZeneca í september 2021.

Fílabeinsströndin tekur á móti AstraZeneca frá Íslandi

Í maí 2021 hættu mörg ríki að gefa ákveðnum aldurshópum bóluefnið frá AstraZeneca, þar á meðal Ísland. Danir hættu í apríl 2021 alfarið að gefa Astra Zeneca og Janssen vegna blóðtappahættu.

Einnig gáfu íslensk stjórnvöld rúmlega hundrað þúsund umframskammta af Pfizer-bóluefninu til Taílands 5. desember 2021.

Samkvæmt Our World Data hefur markmiði WHO með að bólusetja 70% heimsbúa nánast verið náð. 67,4% íbúa heims hafa fengið bóluefnið en aðeins tæplega 21% í þróunarlöndum.

Moderna þurfti að henda 30 milljónum skammta - engin eftirspurn

Framboðið virðist þó vera meira en eftirspurn ef marka má orð forstjóra Moderna, Stéphane Bancel, á fundi World Economic Forum í maí sl.:

„Það er leiðinlegt að segja að ég sé að fara henda 30 milljónum skammta í ruslið því enginn vill þá. Við erum að glíma við mikinn eftirspurnarvanda,“ sagði Bancel.

Hann nefndi líka að Kínverjar vilji ekki mRNA bóluefni sem hefur mikið að segja hvað eftirspurn varðar (Pfizer og Moderna eru mRNA bóluefni).

Ein milljón skammta í ruslið í Nígeríu

Fram hefur komið í fréttum að mörg ríki hafi þurft að fleygja miklu bóluefni þar sem efnið er oft við það að renna út þegar það berst eða komi á síðustu stundu og gefi því yfirvöldum lítinn tíma til að skipuleggja. En aðrar fréttir hafa sagt að Afrikubúar hafi verið hikandi við að taka bóluefnið og því lendir fjöldi skammta á haugunum.

Um milljón skammtar fóru t.d í ruslið í Nígeríu og um 450 þúsund skammtar í öðrum Afríkuríkjum. Það er þó meðal annars GAVI og WHO sem sjá um dreifingu bóluefnisins til þriðja heims landa með COVAX samstarfinu, sem fjöldi efnameiri ríki hafa greitt fyrir.

En þetta á ekki aðeins við um þróunarríkin því í Bandaríkjunum hafa rúmlega 90 milljónir skammta farið til spillis.

Greiningarfyrirtækið Airfinity Ltd. í London sagði í janúar 2022  að um 240 milljónir skammta keyptir af Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan, Kanada og Evrópusambandinu væru að fara til spillis. Fjöldi ónotoðra skammta gætu mögulega orðið 500 milljónir í mars ef önnur lönd sem fá gjafaskammta hafa ekki nægan tíma til að dreifa, sagði fyrirtækið.

Skildu eftir skilaboð