Blaðamaðurinn Toby Young ber sigurorð af PayPal

frettinErlent, PistlarLeave a Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson:

Fyrir nokkrum dögum lokaði greiðslumiðlunin Paypal reikningum blaðamannsins Toby Young, Daily Sceptic vefmiðilsins, sem ég skrifa raunar sjálfur reglulega fyrir, og Free Speech Union, sem eru samtök til varnar málfrelsi. Toby er í forsvari fyrir bæði Daily Sceptic og Free Speech Union.

Það er vonandi tákn um nýja tíma að þessi aðgerð Paypal kom í bakið á þeim. Toby, sem einnig er aðstoðarritstjóri Spectator, vakti strax athygli á málinu, hópur þingmanna tók það upp og skoraði á viðskiptaráðherrann að bregðast við. Í dag sendi svo ráðherrann, Jacob Rees-Mogg frá sér yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi aðgerðir Paypal og krafðist þess að þeir létu tafarlaust af aðgerðum gegn tjáningarfrelsi viðskiptavina sinna. Í kjölfarið opnaði Paypal alla reikningana að nýju.

Þingmenn hyggjast hins vegar ganga lengra og má eiga von á að fyrirtækjum af þessum toga verði bannað með lögum að sýna af sér slíkt framferði.

Toby Young er svo sannarlega ekki sá eini sem orðið hefur fyrir barðinu á tilraunum greiðslumiðlunarfyrirtækja til að hefta tjáningarfrelsi. Samtök sem berjast fyrir réttindum barna, vinstrisinnaðir vefmiðlar, samtök samkynhneigðra og margir fleiri aðilar hafa einnig lent í þessu. Það hefur kannski orðið tjáningarfrelsinu til happs að Paypal valdi sér þarna rangan andstæðing, þekktan blaðamann með sterk pólitísk tengsl. Nú er nauðsynlegt að láta kné fylgja kviði og stöðva hnignun tjáningarfrelsisins í vestrænum samfélögum.

Daily Sceptic.

Skildu eftir skilaboð