Ber að úthluta þingsætum á Alþingi eins og kosningaúrslit segja fyrir um?

frettinPistlar

Aðsend grein eftir Guðbjörn Jónsson

Ég hef ótrúlega oft fengið álíka spurningu eins og þá sem er yfirskrift þessa pistils. Þegar ég svara slíku játandi, er ég iðulega spurður hvernig einstakir þingmenn geti þá tekið upp hjá sjálfum sér að breyta þingstyrk Alþingis að eigin geðþótta? Við þeirri spurningu átti ég svar sem maður hendir svona fram í daglegu tali en ekki svo skýrt að það væri prenthæft. Þess vegna fór ég af stað að afla mér heimilda.

Áður hefur komið fram að engum er gert kleift að bjóða sig fram til Alþingis, nema að sá sé skráður í starfandi stjórnmálaflokk, eða verði á lista flokks sem verið er að stofna. Þetta fyrirkomulag passar ekki við ákvæði stjórnarskrár okkar, þar sem segir að hverjum kjörgengum manni, með óflekkað mannorð sé heimilt að bióða sig fram til setu á Alþingi. Það fyrirkomulag var í gildi frá lýðveldisstofnun til ársloka 1959 er eins manns kjördæmi voru lög niður og kjördæmum fækkað og þau stækkuð og misjafnlega margir þingmenn skipuðu hvert kjördæmi.

Þá hafa líklega þeir sem skipulögðu þá kerfisbreytingu láðst að taka mið af þeim mikilvægu réttindum sem voru í stjórnarskrá. Á þetta atriði lét ég reyna í kosningunum 2013, þar sem ég bauð mig fram sem einstakling, til að fá skráð í varðveittar heimildir, hvernig tekið væri á síkum réttindum einstaklings, samkvæm stjórnarskrá. Og nú liggur það fyrir Landskjörstjórn hikaði þá ekkert við að brjóta stjórnarskrána, enda virðist það gert æði oft í okkar þjóðfélagi og landskjörstjórnekki einu um það.

En þetta átti að fjalla um það hvort landskjörstjórn úthluti þingsætum í samræmi við niðurstöður úrslita kosninga. Að öllu jöfnu virðist svo vera, þó nú séu skrítnir tímar. Kosningaúrslit enn óljós í einu kjördæmi og einn sem skipaði efsta sæti lista á Suðurlandi, sagði sig úr flokknum skömmu eftir kosningar (áður en kjörbréf voru gefin út) og flutti sig yfir í annan stjórnmálaflokk. Nú er hins vegar búið að gefa út kjörbréfin, þó Alþingi eigi eftir að fara yfir þær úthlutanir og staðfesta þær. Ég hef lengi haldið fram að þingmanni væri óheimilt að fara með þingsætið úr þeim flokki sem fékk það í kosningum. Það væri ólöglegt, því atkvæðin sem kusu lista flokksins, kusu þingmanninn ekki sem persónu heldur kusu þeir tiltekinn stjórnmálaflokk.

Og hvernig rökstyð ég þá staðhæfingu?

Í fyrsta lagi er það svo að í kosningalögum er HVERGI talað um einstaka frambjóðendur. Ævinlega er talað um LISTA stjórnmálaflokks og tiltekið hvaða flokk er um að ræða. Þegar atkvæði eru talin, er ævinlega talað um fjölda atkvæða til stjórnmálaflokka og tiltekið hvað mörg þingsæti hver flokkur hafi fengið. Í kosningalögum kemur einnig fram að stjórnmálaflokkar beri alla ábyrgð á því að hver listi flokksins hafi réttan fjölda frambjóðenda (tvöfaldan fjölda þingsæta kjördæmis). Flokkurinn sé hins vegar alls ráðandi um hvernig listinn er skipaður; hver skipi efsta sæti og hverjir skipi næstu sæti líklegs fjölda þingmanna.

Kosningalög tala ævinlega um ÞINGSÆTI stjórnmálaflokka.
Þegar Landskjörstjórn fer síðan að útdeila þingsætum, staðfestir hún fyrst fjölda atkvæða til hver flokks, sem skili flokknum tiltekið mörgum þingsætum í hverju kjördæmi fyrir sig. OG ævinlega er þar talað um fjölda ÞINGSÆTA. Þegar svo kemur að því að ÚTHLUTA þingsætum, fer Landskjörstjórn eftir framboðslistum flokkana í hverju kjördæmi og byrjar alltaf á efsta manni lista, eins og er í venjulegu röðunarferli.

Þá var einungis eftir að fá fullvissu sína fyrir því hvernig kjörbréfin væru orðuð, sem Landskjörstjórn úthlutaði. Var úthlutað tilteknu þingsæti tiltekins flokks í tilteknu kjördæmi? EÐA Var bara úthlutað þingsæti til tiltekins einstaklings, án þess að tiltekið væri hvaða stjórnmálaflokki hann tilheyrði og jafnvel í hvaða kjördæmi.

Til að fá nákvæmar upplýsingar um þetta, snéri ég mér til dómsmálaráðuneytis með spurninguna um hvernig kjörbréf liti út og hvernig það væri útfyllt. Í kosningalögum í 111. grein segir fyrst að landskjörstjórn úthluti þingsætum skv. 107-110 gr. og skuli hún tafarlaust fá hinum kjörnu þingmönnum og varamönnum þeirra kjörbréf - sem samin skulu samkvæmt fyrirmynd er [ráðuneytið] segir fyrir um. - Í dómsmálaráðuneytinu fannst nú hvorki form að kjörbréfi né fyrirmynd um hvernig þau skyldu útfyllt. Var mér þá ráðlagt að snúa mér til skrifstofu landskjörstjórnar, sem ég gerði.

Og hjá ritara landskjörstjórnar fékk ég snögga og góða þjónustu. Mer var innan stundar sent hið virðilega form kjörbréfs og einnig sýnishorn á útfylltu kjörbréfi frá liðnu kjörtímabili, sem var því úr gildi fallið. Þar sem ljóst er að öll kjörbréf eru útfyllt með samskonar upplýsingum, er hægt að segja að kjörbréf líti svona út. Á forsíðu er prentað stórum stöfum: KJÖRBRÉF alþingismanns, og neðst á forsíðu er skjaldarmerki Íslands. Kjörbréfið er í A5 broti og opnast eins og kort. Þar stendur eftirfarandi, sett upp í ímyndardæmi:

Landskjörstjórn gjörir kunnugt

Að við alþingiskosningar 28. október 2017 hlaut - Jón Jónsson af Í-lista Ímyndarflokks kosningu sem 11. þingmaður Suðvesturkjördæmis lögmætan tíma. (út kjörtímabilið innskot GJ)

Og undir svona skjal með dagsetningu og ártali, rita liklega landsstjórn 5 aðilar.

Það sem þetta leiðir í ljós er það að sá þingmaður sem yfirgefur það þingsæti sem hann er kjörinn til að gegna, samkvæmt úthlutun landskjörstjórnar á þingsætum, getur ekki farið neitt annað með þær atkvæðistölur sem eru forsendur fyrir því þingsæti sem honum var úthlutað. Segi þingmaður sig frá þeim skyldum sem hann er kosinn til, að vera þingmaður þess flokks sem fékk úthlutað þingsætinu sem hans lista var úthlutað, er þingmaðurinn algjörlega réttlaus að fara neitt með þingsætið til annarra flokka. Kjörbréfið gildir EINUNGIS, fyrir það þingsæti sem Flokkur hans fékk úthlutað og Flokkurinn úthlutaði honum af því hann var á þeim stað í röðun á lista flokksins að hann væri næstur að fá þingsæti. Þingmaður sem segir sig frá því starfi sem flokkur hans felur honum að sinna í sínu nafni, er í nákvæmlega sömu stöðu og sá maður er sem yfirgefur þá vinnu sem hann hefði ráðið sig til að vinna. Hann fer ekkert með starfið í annað fyrirtæki. Maðurinn segir sig úr flokknum og fer, en annar maður af lista Flokksins tekur við starfi hans.

Þegar litið er til Revíunnar sem hefur verið að þróast eftir að Birgir sagði sig úr Miðflokknum og tók sér ferð á hendur yfir í þann stjórnmálaflokk sem hefur tvæmælalaust flesta lögfræðinga á Alþingi, formann og varaformann flokksins, ásamt dómsmálaráðherra, er næsta undarlegt að sjá svona skýrt opinberast virðingarleysi allra þessara aðila fyrir.

RÉTTLÆTI, STJÓRNARSKRÁ, KOSNINGALÖGUM OG ÆRU ÞESS FÓLKS SEM MENNTUNAR SINNAR VEGNA EIGA AÐ ÞEKKJA LEIKREGLUR HEIÐARLEIKANS Í SVONA MÁLUM.