Að sjá í gegnum áróður

frettinHildur Þórðardóttir, PistlarLeave a Comment


Við teljum okkur öll vita hvað áróður er. Einhver er að reyna að fá okkur til að trúa einhverju, til dæmis að kjósa ákveðinn flokk, styðja málstað sem við myndum ekki styðja undir eðlilegum kringumstæðum eins og stríð til dæmis, eða jafnvel taka af okkur sjálfsögð mannréttindi eins og gert var í Covid.

Áróður er sérstaklega hannaður til að vekja upp sterkar tilfinningar eins og reiði, ótta, meðaumkvun eða löngun, því þannig nær hann beint inn í kviku viðkomandi. Áróður einfaldar hlutina og beinir athyglinni að einhverju einu. Hlutirnir eru annað hvort góðir eða hræðilegir. Það er enginn millivegur.

Mótrök eru ekki leyfileg og allar gagnrýnisraddir þaggaðar niður, til dæmis með því að niðurlægja þá sem láta í sér heyra með öndverðar skoðanir. Það að áróðurinn fer beint inn í kviku veldur því að fólk verður æst ef einhver hyggst leiða þeim aðra skoðun fyrir sjónir og  þeir sem ekki fylgja áróðurslínunni eru útilokaðir úr hjörðinni. 

Áróður getur að sjálfsögðu verið til góðs, eins og skilaboð um að borða meira grænmeti og hreyfa sig meira.  En oftar er um að ræða skaðlegri áróður eins og þegar sígarettufyrirtæki lofuðu reykingar mestalla síðustu öld. Þrátt fyrir að skaðsemi reykinga kæmi í ljós, fjölluðu fjölmiðlar ekkert um það því þeir voru of háðir auglýsingatekjum frá sígarettuframleiðendum.

Sama með áfengi og ýmis lyf og skaðsemi þeirra. Fjölmiðlar eru of háðir tekjum frá auglýsendum til að vera gagnrýnir.

Hasarmyndir eru hreinræktaður áróður, styrktur af vopnaframleiðendum, þar sem persónulausir statistar eru stráfelldir þar til einungis hetjan stendur eftir. Tilgangurinn er að sannfæra almenning um að þarna úti sé samviskulaus óvinur og að vopnin séu til þess að útrýma honum.

Áróðursfrétt um að einræðisherra hafi beitt efnavopnum er oftast til að réttlæta innrás „bandamanna“ í landið. Síðar kemur í ljós að það voru uppreisnarmenn með stuðningi Vesturlanda sem beittu efnavopnunum. Eða að enginn fótur hafi verið fyrir fréttinni. En of seint.

Góð leið til að sjá hvort um áróður sé að ræða er að finna hvort hann veki sterkar tilfinningar. Því sterkari tilfinningar, því líklegra er að um áróður sé að ræða. Eins og Stalín sagði: „Dauði eins manns er harmleikur, dauði milljóna er tölfræði.“

Önnur leið er að spyrja sig alltaf við lestur allra frétta: „Hver á hagsmuna að gæta af þessari frétt?“ Hver mun koma og bjarga okkur frá þessu „hræðilega“ ástandi sem fréttin básúnar? Lyfjafyrirtæki? Stjórnmálaflokkur? Yfirvöld? Eða kannski her einhvers lands?

Þriðja leiðin er að sjá hvort mynd sem fréttin er um hafi verið birt áður. Til dæmis er hægt að nota myndleitarforritið images.google.com.  Myndinni er þá vistað á tölvuna og hlaðin upp þegar leitarforritið biður um það.

Þessi mynd, sem margir hafa deilt á samfélagsmiðlum, er sérstaklega valin til að vekja réttláta reiði fólks og þar með efla stuðning með málstaðnum. 

Þegar leitað er hvort þessi mynd hafi birst áður má sjá að myndin var tekin árið 2015 af dreng frá austurhluta Úkraínu. Drengurinn slasaðist í árás Úkraínuhers eða hins sjálfskipaða þjóðvarðarliðs þar sem þeir börðust gegn rússneskumælandi fólki sem vildi frekar vera hluti af Rússlandi en Úkraínu. Í sprengunni lést bróðir drengsins. Ef myndin er frá 2015, eru þá ekki alveg eins miklar líkur á að fjöldi dauðsfalla sé frá þeim tíma líka? Og ekki af hálfu Rússa heldur Úkraínumanna sjálfra.
 

Best er að skoða báðar hliðar og taka eigin upplýsta ákvörðun út frá því sem þar kemur fram. Hver eru mótrökin? Ef mótrökin eru bönnuð í umræðunni er öruggt að um áróður er að ræða og þá er einmitt betra að kynna sér mótrökin vel, því þar leynist yfirleitt sannleikskornið.

Þeir sem lesa fáa miðla fá líklega alltaf sama sjónarhornið. Gott er að kynna sér fjölmiðla sem fjalla um málin frá annarri hlið, innlenda og erlenda, ekki til að taka allt þar upp gagnrýnislaust, heldur til að geta tekið upplýsta ákvörðun. 

Á vef BBC er fjallað um nokkrar leiðir til að sjá í gegnum áróður og er ein röksemdin er að ef fréttin birtist á stórum miðlum sem njóta virðingar, eins og til dæmis BBC, er fréttin ekki áróður. Þessi rök gilda ekki lengur, því BBC er nú m.a. í eigu Bill Gates sem hefur beina hagsmuni af bólusetningum og lyfjagjöfum. Þar sem margir miðlar hér á landi taka gagnrýnislaust upp fréttir frá BBC, CNN og Reuters er heldur ekki hægt að treysta þeim.

Ef einhver er stimplaður rugludallur og samsæriskenningasmiður er nokkuð víst að hann hafi eitthvað til síns máls.

Um helgina var Mark Crispin Miller með fyrirlestur í Hörpunni um áróður. Í áratugi kenndi hann fjölmiðlafræði við Háskólann í New York, NYU, skrifað fyrir marga virta fjölmiðla og hefur gefið út nokkrar bækur. Meðal annars bókina Fooled again þar sem hann flettir ofan af kosningasvindli í Bandaríkjunum og færir rannsökuð rök fyrir. Enginn fjölmiðill í Bandaríkjunum fjallaði um bókina nema einn sem gerði lítið úr henni.

Eftir því sem hann kafar dýpra er hann gerður tortryggnari og nú er svo komið að hann fær engar bækur útgefnar. Enginn hérlendur fjölmiðill fjallaði um komu hans, nema einn sem að sjálfsögðu tiltók „hitpiece“ árásargrein þar sem snúið var úr orðum hans, gagngert til að grafa undan trúverðugleika hans.

Þegar farið var að kalla þennan áður virta fræðimann samsæriskenningasmið rannsakaði hann upptök orðsins og fann út að það var sáralítið notað fyrr en árið 1967. Eftir morðið á J.F. Kennedy komu fram kenningar um hver hefði staðið að morðinu, aðrar en hinar opinberu. CIA ritaði þá minnisblað til allra fjölmiðla í landinu og hvatti þá til að nota þetta orð samsæriskenningasmiður til að lítillækka og grafa undan trúverðugleika lærðra og leikmanna sem efuðust um opinberar skýringar á morðunum á JFK, Martin Luther King og mörgu fleira sem yfirvöld vildu halda leyndu.

Það er enginn að hafa fyrir því að þagga niður í vitleysu. En sumir eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að þagga niður í sannleikanum. 

Skildu eftir skilaboð