Bandaríski auðkýfingurinn Elon Musk stendur nú í deilum við úkraínska embættismenn á Twitter, þar á meðal Volodímír Selenskí Úkraínuforseta, vegna hugmynda Musk um leið til að binda enda á stríðsátökin í Úkraínu.
Musk leggur til gerð friðarsamkomulags sem byggist m.a. á því að aftur yrði kosið í þeim héruðum Úkraínu en undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Þá leggur hann til að stjórn Rússa yfir Krímskaga yrði viðurkennd formlega og að Úkraína fengið stöðu sem hlutlaust ríki. Þessar hugmyndir virðast ekki leggjast vel í embættismennina.
Musk bjó til skoðanakönnun sem fylgjendur hans á Twitter samtals 107 milljónir, gátu tekið þátt í.
Selenskí svaraði Musk fremur sérkennilega með því að birta aðra könnun á Twitter. Og gefur hann Musk þar tvo svarmöguleika og spyr hvort honum líkar betur við þann sem styður Úkraínu eða þann sem styður Rússa.
Andrí Melnyk, sendiherra Úkraínu í Þýskalandi, var ómyrkur í máli og skrifar hann til Musk: „Hypjaðu þig, það er mitt diplómatíska svar.
Mykhailo Podolyak, einn ráðgjafa Úkraínuforseta, lagði til „betri friðaráætlun“ sem byggði á því að Úkraína myndi endurheimta öll sín héruð, þar á meðal Krím, Rússland yrði afvopnað og öll kjarnavopn tekin af þeim og að „stríðsglæpamenn“ myndu svara til saka fyrir alþjóðlegum dómstól.
Musk sagði síðar að Rússar gætu blásið til sóknar sem myndi leiða til allsherjarstríðs með tilheyrandi mannfalli hjá báðum fylkingum, en Musk benti líka á Rússar væru mun fjölmennari en Úkraínumenn.
„Það er ólíklegt að Úkraína sigri í allsherjarstríði. Ef þér er annt um Úkraínumenn þá skaltu sækjast eftir friði,“ skrifar Musk á Twitter.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur skorað á Úkraínu að láta af vopnuðum átökum og setjast að samningaborðinu, en hann tilkynnti nýverið um herkvaðningu til að efla hersveitir Rússa í stríðsátökunum, auk þess sem hann hefur hótað að beita kjarnorkuvopnum.
Selenskí hefur sagt að hann muni aldrei semja við Rússa svo lengi sem Pútín sitji þar á valdastóli og því ljóst að forsetinn ætlar sér ekki í friðarsamkomulag við Rússland á næstunni.