Rússland gerir sprengjuárásir á Úkraínu eftir hryðjuverkið á Kerch brúnni

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Stjórnmál1 Comment

Miklar loftárásir Rússlands með langdrægum sprengiflaugum hófust í morgun, á hernaðarmannvirki, stjórnstöðvar og innviði í Úkraínu. Frá því greinir Russia Today á vef sínum í dag. 

Að minnsta kosti ellefu manns eru látnir og enn fleiri eru slasaðir, að því er The Guardian greinir frá. Ráðist var á fjölmarga staði í morgun, samanber kort sem á að shafa verið birt í úkraínskum fjölmiðlum (Telegram). Víða er orðið vatns-, rafmagns- og netsambandslaust.

Amk. 14 borgir urðu fyrir eldflaugaárásum í morgun.

Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, tísti og sagði að ekkert þýddi að ræða við Pútín um frið, hann væri „hryðjuverkamaður sem talaði með eldflaugum“.

Jens Stoltenberg, aðalritari NATO, tísti einnig og fordæmdi árásirnar, með loforði um stuðning við frekari átök.

Kerch brúin kornið sem fyllti mælinn

Árásirnar virðast vera andsvar við hryðjuverkaárás á Kerch-brúna sem tengir Krímskagann við Rússland, fyrir tveimur dögum síðan. Stjórnvöld í Kænugarði hafa ekki lýst yfir ábyrgð, en hafa þó lengi haft augastað á brúnni. Rússnesk stjórnvöld skipuðu samdægurs nefnd til að rannsaka málið.

„Verði fleiri tilraunir til hryðjuverkaárása á Rússland, munum við svara þeim af festu og í samræmi við aðsteðjandi ógnir,“ er haft eftir Vladimir Pútín, Rússlandsforseta í morgun.

Forsetinn sakaði úkraínsk stjórnvöld um að „hafa lengi notast við hryðjuverkaárásir“. Hann tilgreindi stöðugar og viðvarandi sprengjuárásir úkraínska hersins á almenna borgara í borgum og bæjum í Donbass, auk kjarnorkuverið í Zaporozhye. Til viðbótar nefndi hann skemmdarverk Úkraínumanna á kjarnorkuverinu í Kursk í Rússlandi um miðjan ágúst sl.

Stigmögnun á átökunum gæti orðið með þessu öfluga andsvari Rússlands. Skipun nýs hershöfðingja fyrir tveimur dögum síðan, Sergei Surovikin, yfir sameinuðum hersveitum hinnar sérstöku hernaðaraðgerðar Rússlands í Úkraínu, gæti einnig hafa spilað inn í ákvörðun um aðgerðir dagsins.

Sergei Surovikin, hershöfðingi, Rússland.

Brúin komin í notkun að hluta

Af Kerch brúnni, sem opnaði árin 2018-19, er það að frétta að eignatjónið varð minna en virtist í fyrstu. Mikill eldur kviknaði vegna lestarvagna sem fluttu eldsneyti, en lestarteinarnir virðast þó ekki hafa orðið fyrir teljandi tjóni. Opnað var fyrir lestarumferð eftir að brunnir lestarvagnar voru fjarlægðir. Svolítill hluti af 19 km löngum akvegi brúarinnar hrundi, en mögulegt hefur verið að opna fyrir takmarkaða bílaumferð. Viðgerð stendur yfir.

Þrír létust í sprengingunni, þar af maður sem ók flutningabíl fullum af sprengiefni upp á brúna, auk tveggja annarra sem voru á ferð um brúnna en ekki hefur tekist að bera kennsl á.

One Comment on “Rússland gerir sprengjuárásir á Úkraínu eftir hryðjuverkið á Kerch brúnni”

  1. Mikið vesturheimskt ramakvein rekið upp í morgun þegar fréttist að Pútin hefði skipað Surovikin,öðru nafni Heimsendi hershöfðingja (e. General Armageddon), yfir heraflann í Úkraínu. Hvílík mannvonska að skipa slíkan mann, sem hefur sýnt getu sína og hæfileika í verki (sneri stöðunni í Sýrlandi fljótt og vel sér í hag og heimamanna).

    Ekkert ‘elsku mamma’ í boði hjá Heimsenda, eins og á grönum má sjá.

    Nú fer aur- og forartíminn í hönd í Úkranínu, þar sem allir vegir og akrar eru ófærir, en stendur aðeins í skamma hríð áður en vetrarfrostið skellur á. (-10°C að jafnaði). Síðan verður spennandi að sjá til hvaða ráða hann mun grípa þar á svæðinu og hvort honum tekst að sýna snilli sína aftur í verki.

Skildu eftir skilaboð