Stálhöndin strýkur þér um vangann

frettinArnar Þór JónssonLeave a Comment

Eftir Arnar Þór Jónsson hæstaréttarlögmann:

Íslendingar verða að geta gert greinarmun á klassísku frjálslyndi (sem ver málfrelsi) og gervifrjálslyndi / stjórnlyndi / valdboði / harðstjórn (sem boðar ritskoðun). Við megum ekki láta flauelshanska byrgja okkur sýn á stálhnefann sem hótar barsmíðum þeim sem ekki ganga í takt við fyrirskipun valdsins. Varla er það æðsta þrá fólks að afsala sér frelsi og sjálfstæði í kæfandi faðmlagi við ríkisvald sem býðst til að vernda okkur fyrir hættum frelsisins? Svari nú hver fyrir sig.  

Tillaga forsætisráðherra til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um hatursorðræðu 2023-2026 er til marks um varhugaverða þróun íslensks stjórnarfars, frá frelsi til valdboðs, frá málfrelsi til ritskoðunar, frá jafnræði til mismununar, frá valddreifingu til miðstýringar. Tillagan afhjúpar háskalega þróun, þar sem sífellt er þrengt meira að sjálfsákvörðunarrétti fólks. Í stað þess að grunneiningin sé hinn frjálsi einstaklingur, er ríkið sjálft gert miðlægt.

Með tillögu forsætisráðherra er þess freistað að þrengja ramma leyfilegrar umræðu. Undir yfirskini lýðræðisverndar er þrengt að öndunarvegi lýðræðisins með því að hefta málfrelsið. Á grundvelli kreddu og kennivalds er með tillögunni vegið að undirstöðum réttarríkisins með því að opna fyrir geðþóttastjórn og mismunun. Tillagan miðar að því að móta opinbera stefnu um hvað megi hugsa, segja og skrifa. Með gagnályktun má ætla að allt sem fellur utan þess ramma verði óleyfilegt. Slík ráðagerð gengur gegn grunngildum lýðveldisins um frelsi einstaklinganna til orðs og athafna, vernd þeirra gegn hvers kyns yfirgangi valdhafa og að lögin gegni því frumhlutverki að verja frelsi fólks, ekki að skerða það.

Kjósendur verða að veita þingmönnum sínum sérstakt aðhald og eftirlit þegar kemur að þessari tillögu forsætisráðherra. Þingmenn sem leggjast á sveif með valdboði svíkja kjósendur sína. Valdhafar hafa ekkert umboð til að taka sér skilgreiningarvald yfir sannleikanum. Frelsi til að gagnrýna, efast, skora ríkjandi viðhorf á hólm, krefjast endurskoðunar og mótmæla er líftaug lýðræðis, vísindastarfs og borgaralegs frelsis. Leggja ber áherslu á að íbúar landsins njóti frelsis til að fá að nálgast mál frá mismunandi sjónarhólum, án þöggunar, án ritskoðunar. Verði sá rammi ekki varinn mun hann þrengjast. Sú þróun mun valda þrengingum á öllum sviðum mannlífsins. Afstaða þingmanna til þessarar tillögu forsætisráðherra mun gefa kjósendum glögga mynd af kjörnum fulltrúum okkar.  

Skildu eftir skilaboð