Háskólaprófessor skorar á RÚV að sýna viðtal við sig í heild sinni

frettinInnlendar

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, hefur skorað á RÚV að sýna viðtal í heild sinni sem tekið var við hann við fréttaskýringaþáttinn Kveik en Jón segir Kveik ekki hafa gætt hlutleysi í umfjöllun um gagnrýnendur sóttvarnaraðgerða og finnst honum framsetning þáttarins til þess fallin að kasta rýrð á málflutning sinn.

Hann hvetur fólk til að hugsa sig vel um áður en það fellst á að koma í viðtal í þættinum. Ritstjóri Kveiks gefur lítið fyrir gagnrýnina og segir að faglega hafi verið unnið að umfjölluninni.

Rætt var við Jón Ívar í nýjasta þætti Kveiks sem birtist þann 5. október. Í innslaginu fjallaði fréttamaðurinn Arnhildur Hálfdánardóttir um fólk sem hefur haft uppi efasemdir um sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda og bólusetningu gegn Covid-19.

Í aðsendri grein sem birtist á Vísi gagnrýnir Jón Ívar meðal annars hvernig hálftímalangt viðtal við hann hafi verið klippt niður í um 85 sekúndur.

„Það gefur augaleið að þetta gefur Kveik fullkomið frelsi til að klippa viðtalið eins og best passar þeirri sögu sem þau vilja segja. Eftir að hafa farið í þetta viðtal og svo horft á þáttinn er ljóst að Kveikur var búinn að skrifa handritið að mestu fyrirfram og svo voru viðtöl viðmælenda klippt til eins og hentaði handritinu. Síðan voru fengnir álitsgjafar með réttar skoðanir og þeir klipptir inn í til að leiðrétta hina viðmælendurna,“ segir Jón Ívar.

Þá er nokkuð ljóst að RÚV er með þessum starfsháttum að brjóta ákvæði fjölmiðlalaga en þar segir.

26. gr. Lýðræðislegar grundvallarreglur.
Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni [í fréttum og fréttatengdu efni] 1) og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna.

Þá virðist stofnunin einnig brjóta siðareglur RÚV með háttsemi sinni:

  • Með reglum um málsmeðferð athugasemda og kvartana, sbr. 13. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, er einnig skapaður farvegur trausts og óhlutdrægni fyrir rökstuddar ásakanir um misbrest og stuðlað að því að leyst verði úr ágreiningi á málefnalegan hátt.
  • Starfsfólk gætir að því að vera óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum í efnismeðferð og ritstjórnarákvörðunum.
  • Starfsfólk sýnir gestum, viðmælendum og hagsmunaaðilum ætíð fyllstu kurteisi.